Albert og félagar á Víkingi AK moka upp makrílnum


Skagamaðurinn Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi AK, mokar upp makrílnum ásamt öflugri áhöfn sinni. Í gærkvöld var Víkingur AK á Vopnafirði að landa 770 tonna afla af makríl.

Albert segir í viðtali á heimasíðu HB Granda að aflabrögð hafi verið góð að undanförnu.

,,Við vorum að veiðum út af Reyðarfjarðardjúpi en þaðan er um átta tíma sigling til Vopnafjarðar. Það var dálítið erfitt að forðast síld sem aukaafla en það gerist á hverju ári að síld kemur með makrílnum. Þá færir maður sig bara í von um að fá hreinan makríl. Þetta er allt rígvænn fiskur, 500 grömm og þyngri, og enn sem komið er virðist ekki vera neitt lát á göngum upp að landinu,“ segir Albert en að hans sögn hefur verið mikil ferð á makrílnum í norðausturátt.