Valdís Þóra einu skrefi nær sterkustu mótaröð heims


Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins fyrir LPGA mótaröðina í Bandaríkjunum.

Valdís Þóra þarf að komast í gegnum tvær síur til viðbótar á næstu mánuðum til þess að komast inn á sterkustu atvinnumótaröð heims.

Alls tóku 360 keppendur þátt á 1. stig úrtökumótsins sem fram fór á þremur keppnisvöllum á Rancho Mirage golfsvæðinu í Kaliforníu.

Valdís Þóra lék hringina fjóra á -1 samtals (72-73-70-72) 287 högg. Hún endaði í 21.-36. sæti.

Leiknar voru 72 holur á fjórum keppnisdögum og var niðurskurður eftir þriðja hringinn. Til þess að komast inn á 2. stig úrtökumótsins í október þurfti Valdís Þóra að vera á meðal 60 efstu á 1. stiginu.

2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA mótaröðina fer fram 12.-17. október á Plantation golfvallasvæðinu í Flórída. Þar verða leiknir fjórir keppnishringir og komast 15-25 efstu áfram inn á lokaúrtökmótið.

Lokaúrtökumót LPGA mótaraðarinnar, Q-Series, fer síðan fram á tímabilinu 21. okt-2. nóvember á Pinehurst golfvallasvæðinu í Norður-Karólínu. Þar er keppt um 45 efstu sætin sem tryggja keppnisrétt á LPGA mótaröðinni keppnistímabilið 2019.

Þar verða leiknir 8 keppnishringir á tveimur vikum. Þeir kylfingar sem lenda í 20 efstu sætunum fá 100% keppnisrétt á LPGA en þeir sem enda í sætum 21-45 fá takmarkaðan keppnisrétt.