Valgarður L. Jónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akranesi, lagði fram bókun á síðasta bæjarstjórnarfundi. Þar lýsti Valgarður því yfir að meirihlutinn ber fullt traust til bæjarfulltrúans Rakelar Óskarsdóttur sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins sem er í minnihluta bæjarstjórnar.
Samfylkingin myndar meirihluta í bæjarstjórn með Framsókn og frjálsum.
Tilefni bókunarinnar eru orð sem féllu úr ræðustóli á fundi bæjarstjórnar þann 27. ágúst s.l. þar sem Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir gagnrýndi Rakel harðlega í ræðu sinni á þeim fundi.
Hér má sjá upptöku frá fundinum 27. ágúst.
Bókunin er í heild sinni hér fyrir neðan:
„Á fundi bæjarstjórnar þann 27. ágúst síðastliðinn féllu orð úr ræðustóli sem betur hefðu aldrei verið sögð. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra harma þetta og taka ekki undir þau orð sem þar féllu í garð bæjarfulltrúa Rakelar Óskarsdóttur. Það kom á óvart að umræður á fundinum skyldu þróast í þá átt sem þær gerðu, enda eru bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Akraness, hvort sem þeir eru í meirihluta eða minnihluta, vanir því að vinna vel saman og vera málefnalegir í umræðum.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra vilja taka fram að þeir bera fullt traust til bæjarfulltrúa Rakelar Óskarsdóttur og vona að þetta mál varpi ekki skugga á áframhaldandi samstarf meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn.
Við erum öll mannleg og getur orðið á, en allir eiga skilið að fá annað tækifæri. Gerður Jóhanna hefur sinnt störfum sínum sem bæjarfulltrúi og formaður velferðar- og mannréttindaráðs af mikilli alúð og staðið sig með prýði og berum við fullt traust til hennar ákveði hún að koma til starfa að nýju að loknu leyfi.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundinum lögðu fram eftirafarandi bókun :
„Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma mjög þá hegðun og þau orð sem bæjarfulltrúi Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir viðhafði og lét falla í ræðustól á bæjarstjórnarfundi þann 27. ágúst sl. í garð annars bæjarfulltrúa. Ummælin voru ekki í þeim anda samstarfs sem bæjarfulltrúar á Akranesi hafa jafnan viðhaft og rýra án efa traust almennings á kjörnum fulltrúum. Það er þó hvers bæjarfulltrúa fyrir sig að ákveða með hvaða hætti hann axlar ábyrgð á gjörðum sínum.
Upphlaup sem þetta kallar hins vegar, að mati undirritaðra, á endurskoðun á siðareglum kjörinna fulltrúa. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna traustsyfirlýsingu bæjarfulltrúa meirihlutans til handa bæjarfulltrúa Rakel Óskarsdóttur sem er skref í átt að endurheimt trausts og áframhaldandi góðu samstarfi allra bæjarfulltrúa í bæjarstjórn Akraness.“
Hér má hlusta á bæjarstjórnarfundinn frá 10. september í heild sinni: