Samið við Íslandsgáma ehf. um uppbyggingu á Breiðinni


Íslandsgámar ehf. og Akraneskaupstaður skrifuðu undir saming í síðustu vegna framkvæmda á Breið. Alls bárust 5 tilboð í verkið. Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu á svæðinu á árinu 2019 er um 55 m.kr. Frá þessu er greint á vef Akraneskaupstaðar.

Í ár verður lögð áhersla á að ljúka við frágang með lagningu nýrra yfirborðsefna samkvæmt heildstæðri hönnun og skipulagi á Breiðinni. Það felur í sér að endurnýja stakkstæði og setja upp skjólveggi, borð og bekki á nýju áningasvæði. Jarðvegsskipta þarf að hluta svæðinu undir lagningu nýs yfirborðsefnis og hækka það lítillega til samræmis við umhverfið. Leggja þarf nýtt yfirborðsefni á stíga, dvalarsvæði og bílastæði; grasstein, steinalögn eða torf – eftir því sem við á. Það á einnig að bæta við hlöðnum veggjum og steypa í kringum vita ásamt fleiri verkum.

Breiðin á Akranesi fékk 35. m.kr. úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrr á árinu. Áætlaður heildarkostnaður við uppbyggingu á svæðinu í ár er um 55 m.kr.

Í ákveðnum hluta verksins vinnur Unnsteinn Elíasson torg- og grjóthleðslumaður, m.a. endurgerð stakkstæðanna sem er nánast lokið og við aðrar grjóthleðslur á svæðinu. Þessu til viðbótar má geta þess að Vegagerðin ætlar að endurbæta grjótvörn á vestanverðri Breiðinni, frá stóra-vitanum að lóð þar sem olíutankar stóðu.

Breiðin er einn fjölsóttasta ferðamannastaður á Akranesi. Uppbygging svæðisins hófst fyrir um 6 árum með greiningu, skipulagningu og hönnun. Búið er að efla svæðið sem útivistar- og áningarstað m.a. með því að útbúa aðkomutorg með þjónustuhúsum, steypa áningasvæði með bekkjum, ganga frá landmótun og gróðri, bæta aðgengismál til muna og endurvekja margar menninga- og sögulegar minjar.