Skagaleikflokkurinn leitar að hæfileikaríku listafólki fyrir Litlu Hryllingsbúðina


„Það er ekkert leyndarmál að við erum að leita eftir fólki til að ganga í Skagaleikflokkinn og starfa með okkur. Stjórn félagsins fannst mikilvægt að setja upp eitthvað verkefni sem allir þekkja. Og höfða þannig til fjöldans,“ segir Gunnar Sturla Hervarsson formaður Skagaleikflokksins.

Það stendur mikið til á næstu vikum og mánuðum hjá Skagaleikflokknum og mikill slagkraftur er í starfinu um þessar mundir.

Um næstu helgi eða á laugardaginn 14. september kl. 13.00 hefjast áheyrnarprufur hjá Skagaleikflokknum fyrir verkefnið Litlu Hryllingsbúðina. Áheyrnarprufurnar fara fram í aðstöðu félagsins í gamla mötuneyti Sementsverksmiðjunnar við Mánabraut.

Einar Viðarsson, stjórnarmaður í Skagaleikflokknum, segir að það sé nóg pláss fyrir alla aldurshópa í þessu verkefni.

„Það gefur reyndar augaleið að þeir sem eru söngelskir fá örlítið meira fyrir sinn snúð í slíkri uppfærslu. En við stjórnarmenn erum vissir um að þarna úti er fullt af fólki sem er óreynt á söngsviðinu en getur vel sungið þegar á reynir. Þá eru einnig hlutverk fyrir þá sem ekki vilja koma nálægt söngnúmerum. Við viljum hvetja alla sem hafa áhuga á því að vera með til að mæta í léttar prufur og reyna fyrir sér. Að hika er það sama og tapa segir einhverstaðar,“ segir Einar.

Gríðarlega vinsæll söngleikur

Litla Hryllingsbúðin skipar stóran sess í hjörtum margra Íslendinga enda gríðarlega vinsæl sýning. Sýningin var sett upp hjá Fjölbrautaskóla Vesturlands árið 1995. Að því verkefni komu margir sem eru í stjórn Skagaleikflokksins núna. Litla Hryllingsbúðin kom því fljótlega upp í huga stjórnarfólksins þegar rætt var um hvaða verkefni ætti að velja fyrir haustið.

„Hugmyndin hefur reyndar verið á lofti allt frá árinu 2012,“ segir Gunnar Sturla en hann setti upp söngleikinn Blóðbræður ásamt Einari á þeim tíma. Blóðbræður var sett upp í góðu samstarfi við Vini Hallarinnar og Skagaleikflokkinn. Blóðbræður var einnig sýnt í FVA árið 1992. Þetta samvinnuverkefni gekk vel árið 2012 og á þeim tíma ræddum við að fara næst í Litlu Hryllingsbúðina. Það varð ekkert úr því en eftir að við komum á ný inn í starf Skagaleikflokksins þá var hugmyndin endurvakinn,“ segir formaðurinn.

Slagkraftur í Skagaleikflokknum

Einar segir að aðrar áherslur hafi verið í starfi Skagaleikflokksins á undanförnum árum og stórar sýningar ekki verið á dagskrá. „Grunnskólarnir hér á Akranesi – og FVA verið mest á þessari senu. Það er frekar langt síðan að Skagaleikflokkurinn hefur ráðist í svona viðamikið verkefni. Litla Hryllingsbúðin er skemmtilegt vek og hefur hlotið góðar viðtökur út um allt, og einnig á Akranesi fyrir um 25 árum síðan. Söngleikir eru almennt séð vinsælir. Að þeim koma fjöldi listamanna með allskonar hæfileika. Hópurinn er því fjölmennur, leikarar, söngvarar, tónlistarfólk, og þannig mætti halda áfram,“ segir Einar.

Áskorun fyrir hæfileikaríkt fólk

Gunnar bætir því við að Uppsetningin á Litlu Hryllingsbúðinni sé áskorun fyrir ýmiskonar hæfileika og gáfur sem snúa að sviðsbrellum.

„Það verður sérstaklega áhugavert að sjá gerð plöntunnar. Sem er einn stærsti karakterinn í verkinu. Við vonumst því að fá með okkur í lið gott fólk í alla þá vinnu sem fram fer á bak við tjöldin. Við þurfum aðstoð úr öllum áttum og Skagaleikflokkurinn tekur vel á móti öllum,“ segir Gunnar.

Vettvangur til að þroska hæfileika

Það er mikill kraftur í starfi Skagaleikflokksins um þessar mundir. Stjórn félagsins er samhent og í Skagaleikflokknum er góður hópur að reyna að efla félagið enn frekar með góðri samvinnu.

„Markmiðið okkar er að bjóða bæjarbúum upp á að næra hæfileika sína á listasviðinu. Leiklist, tónlist og allt það sem er undir listaregnhlífinni. Verkefnin eru eins og áður segir fjölbreytt og hentar mörgum. Því má ekki gleyma að á sviði leikhúss starfa fjölmargir listamenn aðrir en þeir sem á sviðinu sjást. Þar má nefna búningahönnuði, leikmyndahönnuði, smiði, grafíska hönnuði, ljósahönnuði, dansara, tæknimenn, leikskáld og svona mætti áfram telja. Skagaleikflokkurinn vill vera vettvangur fyrir listafólk til að þroska hæfileika sína í þessum deildum leikhússins líka,“ segir Einar að lokum.