Skagamennirnir Bjarni Guðjónsson og Arnþór Ingi Kristinsson fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í gær með liði KR í Pepsi-Maxdeild karla í knattspyrnu.
Bjarni er aðstoðarþjálfari KR-liðsins og Arnþór Ingi er að leika sitt fyrsta tímabil með KR en hann lék áður með Víkingum úr Reykjavík.
Þetta var 27. Íslandsmeistaratitill KR í efstu deild karla.
Bjarni og Arnþór Ingi eru báðir fæddir og uppaldir á Akranesi. Léku báðir með yngri flokkum ÍA og meistaraflokki ÍA.
Arnþór er sonur Ernu Sigurðardóttur íþróttakennara við Grundaskóla og Kristins Reimarssonar, fyrrum íþróttakennara hér á Akranesi. Arnþór er fæddur árið 1990. Hann lék með ÍA allt til ársins 2010, þaðan fór hann í Hamar í Hveragerði, og í Víking í Reykjavík árið 2013. Þar lék hann allt til ársins 2019 þegar hann gekk í raðir KR. Á þessu tímabili hefur Arnþór Ingi leikið 14 leiki fyrir KR og skorað 2 mörk. Og hefur verið að margra mati einn besti leikmaður KR á tímabilinu.
Foreldrar Bjarna eru Bjarney Jóhannesdóttir og Guðjón Þórðarson, knattspyrnuþjálfari. Bjarni lék með ÍA á árinum 1995-1997, þaðan fór hann til Newcastle á Englandi. Hann lék sem atvinnumaður víða um Evrópu allt til ársins 2006. Hann lék með ÍA 2006-2008 en gekk í raðir KR árið 2008 og lék með liðinu allt fram til ársins 2013. Bjarni á að baki 23 A-landsleiki.