Nocco-kóngurinn frá Skaganum malar gull


Skagamaðurinn Ársæll Þór Bjarnason og eiginkona hans Kamilla Sveinsdóttir hafa vakið mikla athygli fyrir gott gengi heildsölunnar Core ehf. sem er í þeirra eigu.

Fyrirtækið hefur á undanförnum 20 árum vaxið jafnt og þétt, en árið 2018 var ævintýralegur vöxtur hjá fyrirtækinu.

Þetta kemur fram á vef Viðskiptablaðsins.

Core ehf hagnaðist um tæplega 200 milljónir króna í fyrra samanborið við tæplega 150 milljónir árið 2017. Nemur aukningin á milli ára um 30%.

Fyrirtækið sérhæfir sig í innflutningi á heilsuvörum. Má þar nefna Froosh, Barebells, QNT (hét áður Natures Best), Cawston Press, Gold Cheats, Vitamin Well og Popcorners.

Gullkálfurinn hjá Core ehf. er Nocco vörumerkið en drykkir frá því fyrirtæki hafa selst gríðarlega vel undanfarin ár.

„Við höfum oft náð flugi með ýmsum vörum en þó aldrei eins og núna með Nocco. Þó ég hafi fyrirfram talið að Nocco væri spennandi vara inn á markaðinn þá viðurkenni ég alveg að þessar gríðarmiklu vinsældir hafa komið mér á óvart,“ sagði Ársæll Þór í viðtali við Viðskiptablaðið í lok síðasta árs.

Sonur Ársæls Þórs er lykilmaður í sterku handknattleiksliði FH í Olís-deild karla. Arnar Freyr Ársælsson, en hann leikur oftast í vinstra horninu hjá Fimleikafélaginu. Hér er mynd af þeim feðgum eftir bikarúrslitaleik þar sem að FH fagnaði sigri.

Ársæll Þór er fæddur árið 1973. Hann var í fremstu röð í sundíþróttinni á landsvísu á yngri árum. Foreldrar Ársæls Þórs eru Ólafía G. Ársælsdóttir (Lóa) og Bjarni Guðmundsson, smiður og hestamaður.

Eignir Core námu 109 milljónum í lok árs 2016 en tæplega 600 í lok síðasta árs. Nemur aukningin um 450%. Frá 2016 hefur eigið fé aukist úr 48 milljónum í 303 milljónir eða um 530%.

Ársæll Þór er hér lengst til vinstri í efstu röð á árgangamóti ÍA með öflugu liði 1973 árgangsins.