Farsímar verða bannaðir hjá nemendum í Grundaskóla á Akranesi frá og með mánudeginum 23. september.
Þetta kemur fram í bréfi sem Flosi Einarsson aðstoðarskólastjóri sendi í dag á foreldra og forráðamenn barna í Grundaskóla.
Í bréfinu kemur fram að nemendur hafi ekki virt þær reglur sem settar voru um notkun farsíma Grundaskóla – og meirihluti nemenda tekur lítið mark á þessum reglum.
Bréfið er í heild sinni hér fyrir neðan:
Það hefur eflaust ekki farið fram hjá ykkur að hver skólinn á fætur öðrum, hérlendis sem erlendis, hefur farið þá leið að banna alfarið notkun snjallsíma á skólatíma.
Í okkar huga er augljóst að snjallsímarnir hafa marga kosti og geta nýst vel í námi barnanna.
Af því tilefni settum við reglur á síðasta starfsári um takmarkaða notkun símanna sem fólst í því að nemendur máttu nota þá í tenglsum við námið með leyfi kennara.
Þetta gekk nokkuð vel til að byrja með en hefur smátt og smátt verið að fara í óefni á nýjan leik og meirihluti nemenda tekur lítið mark á þessum reglum. Við sjáum okkur því ekki annað fært en að banna notkun snjallsíma alfarið á skólatíma. Hér eru nokkrar ástæðu fyrir banninu:
- Samkvæmt rannsóknum valda símar kvíða og stressi hjá notendum vegna þess að þeir eru sífellt að fá tilkynningar um skilaboð frá samfélagsmiðlum.
- Einmitt vegna þessa mikla áreitis dregur verulega úr einbeitingu nemanda við verkefnavinnu sína.
- Oft er hægt að rekja einelti af ýmsu tagi beint til samfélagsmiðlanna og ljóst að margt af því sem þar á sér stað fer fram á skólatíma barnanna.
- Okkur langar til að gera skólann að griðastað þar sem nemendur okkar eru lausir við það áreiti sem fylgir samfélagsmiðlum.
Símabannið hefst n.k. mánudag 23. september og stendur til að byrja með fram að haustfríi sem hefst 17. október. Af þessu tilefni ætlum við að draga fram spil og ýmislegt annað sem nemendur geta dundað sér við í frímínútum í staðinn.
Það er mjög mikilvægt að fá ykkur foreldra til samstarfs um þetta verkefni og að þið tryggið að börnin skilji símana eftir heima frá og með næsta mánudegi. Eftir haustfrí munum við síðan í sameiningu meta hvernig til hefur tekist. Við viljum einnig benda á að ef brýn nauðsyn krefur, er alltaf hægt að koma skilaboðum til nemenda með því að hafa samband við ritara skólans.