Arnór er fjórði verðmætasti leikmaður íslenska landsliðsins

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson, sem leikur sem atvinnumaður hjá CSKA í Moskvu, er fjórði verðmætasti leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Þetta kemur fram í samantekt vefsíðunnar Transfermarkt.

DV greindi fyrst frá. Nánar hér.

Að mati Transfermarkt er verðmæti hins tvítuga Skagamanns rétt tæplega einn milljarður kr. eða 960 milljónir kr. (6,3 milljónir punda).

Arnór er staddur hér á landi þar sem hann tekur þátt í landsleikjum Íslands gegn Frakklandi á föstudaginn og Andorra á mánudaginn.

Gylfi Sigurðsson, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Everton, er metinn á rétt tæplega 5 milljarða kr. Gylfi er efstur á „íslenska“ listanum. Alfreð Finnbogason, leikmaður Augsburg í Þýskalandi, er metinn á 2 milljarða kr. og Jóhann Berg Guðmundsson leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Burnley er metinn á um 1,4 milljarða kr.