Bíóhöllin fékk atkvæði Hjálma – eitt besta tónleikahús landsins

Bíóhöllin á Akranesi er að margra mati eitt besta tónleikahús landsins.

Það sannaðist enn og aftur í sumar þegar ein þekktasta hljómsveit landsins, Hjálmar, héldu þar stórtónleika laugardaginn 29. júní.

Hljómsveitin Hjálmar fór vítt og breitt um landið s.l. sumar á tónleikaferðalagi sveitarinnar sem bar nafnið Afturábak.

Þar léku þeir á 15 stöðum víðsvegar um landið. Tónleikarnir í Bíóhöllinni á Akranesi voru þeir næst síðustu á tónleikaferðalaginu 2019.

Hjálmar tóku upp alla 15 tónleikana á ferðalaginu. Hljómsveitin hafði því marga valkosti, en kaus að velja tónleikana frá Akranesi til þess að hljóðblanda (mixa) fyrir útvarpsstöðina Rás 2.

Að flestra mati voru tónleikarnir frábærir, góður andi hjá tónleikagestum, frábært „sánd“ og hljómsveitin alveg upp á 10 í spilamennskunni.

Tónleikarnir verða fluttir á Rás 2, fimmtudaginn 10. okt., kl. 22:05 í þættinum Konsert.