Bakir Anwar Nassar er fæddur árið 1997 í Írak. Hann kom hingað til lands með móður sinni og tveimur systkinum í september árið 2008. Bakir eins og hann ávallt kallaður hefur vakið athygli fyrir góðan námsárangur og hann er einnig efnilegur framherji í knattspyrnunni. Bakir „rúllaði“ upp stúdentsprófinu af náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskóla Vesturlands og fékk m.a. verðlaun fyrir ástundun og framfarir í námi sínu.
Skagafréttir ræddu við Bakir á dögunum en hann kann vel við sig á Akranesi og hann er með skýr markmið fyrir framtíðina.
Bakir með stúdentsskírteinið og verðlaunin á útskriftarathöfn FVA í desember s.l.
„Ég man ekki alveg nákvæmlega hvenær ég kom fyrst til Íslands, mamma segir að það hafi verið 18. september 2008 en ég held að það hafi verið 10. september. Það skiptir engu máli,“ segir Bakir þegar hann var spurður um þær minningar sem hann á frá fyrstu dögunum á Akranesi. Bakir flutti til Íslands ásamt móður sinni og tveimur yngri systkinum. Þau voru í hópi átta fjölskyldna sem komu til Íslands frá Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak.
„Ég var 10 ára að verða 11 þegar ég kom, ég vissi lítið um Ísland á þeim tíma. Það sem kom mér mest á óvart var að það talaði enginn arabísku, en ég hafði ímyndað mér að allir töluðu sama tungumálið. Ég vissi að það væri kalt á Íslandi, kannski snjór, en mér leið strax vel hérna og Akraneshöllin varð mitt annað heimili strax í fyrstu vikunni,“ segir Bakir en hann verður tvítugur á þessu ári.
„Þegar ég kom fór í fótbolta með strákunum daginn eftir. Nokkrum vikum síðar sá ég snjó í fyrsta sinn, það var ískalt, en ég vandist þessu strax,“ segir Bakir en hann talar íslenskuna betur en margir jafnaldrar hans sem hafa ávallt búið á Íslandi.
Krakkarnir hér á Akranesi voru aldrei að stríða mér á því að ég væri lélegur í íslensku, þau hjálpuðu mér alltaf.
„Við björguðum okkur með ýmsum hætti til að byrja með til að gera okkur skiljanleg. Ég notaði fingramál og krakkarnir líka, smátt og smátt komu íslensku orðin inn. Mér fannst í raun ekki erfitt að læra íslenskuna enda var ég með tungumálið í eyrunum alla daga í skólanum og á æfingum í fótboltanum. Í dag hugsa ég á íslensku og arabískuna tala ég nánast bara heima hjá mér við mömmu og systkini mín. Mér fannst íslenskan alls ekki erfið að læra, ég gat ekki annað en lært málið. Krakkarnir hér á Akranesi voru aldrei að stríða mér á því að ég væri lélegur í íslensku, þau hjálpuðu mér alltaf. Ég er enn ekki búinn að ná 100% tökum á málinu og ég á stundum erfitt með fallbeygingar og slíkt. Menn hlægja stundum að vitleysunni í mér og ég reyni að leiðrétta sjálfan mig.“
Bakir var valinn efnilegasti leikmaður Kára á uppskeruhátíð félagsins í desember s.l.
Bakir er sterklega vaxinn ungur maður sem nýtir styrk sinn vel í fótboltanum. Hann var valinn efnilegasti leikmaður Kára á uppskeruhátíð félagsins í desember s.l. Akraneshöllin varð strax hans annað heimili þegar hann kom á Skagann og þar sparkaði hann bolta í vegg við öll tækifæri.
„Áður en ég kom til Íslands hafði ég bara leikið mér í fótbolta á sparkvöllum og aldrei haft þjálfara. Það var mikið stökk fyrir mig að koma á æfingu hjá ÍA en ég var heppinn að Lúðvík Gunnarsson (Lúlli) var þjálfarinn minn strax frá upphafi. Lúlli hefur hjálpað mér mikið, hvatt mig áfram, og einnig Sigurður Jónsson (Siggi Jónsson). Ég er ekki með nein önnur markmið en að æfa eins mikið og hægt er, leggja mig fram, gera mitt besta og sjá til hvert það skilar mér. Ég fæ að æfa með ÍA eitthvað áfram í meistaraflokknum í vetur og ég er þakklátur fyrir það,“ segir Bakir en hann er 1,90 m á hæð og rétt rúmlega 90 kg. að þyngd.
Oft var ég bara einn
að sparka bolta í vegg
„Ég gerði nánast ekkert annað en að vera í fótbolta þegar ég kom fyrst á Skagann. Oft var ég bara einn að sparka bolta í vegg, en það var líka frábær æfing. Það er ekkert skemmtilegra en fótbolti. Ég held ekki með neinu sérstöku liði fyrir utan ÍA og Kára. Mér finnst gaman að horfa á óvænt úrslit, og held oftast með litlu liðunum í enska boltanum, íslenska landsliðið og það íraska eru einnig mín lið.“
Bakir hóf nám í Brekkubæjarskóla þegar hann kom til Íslands og kunni hann vel við sig þar.
„Ég byrjaði í 6. bekk í Brekkubæjarskóla og var þar þangað til í 9. bekk. Ég tók tvö síðustu árin í grunnskólanum í Grundaskóla. Mér leið vel í Brekkubæjarskóla en ég bý við hliðina á Grundaskóla og þegar morgunæfingarnar í fótboltanum byrjuðu þá var einfaldara fyrir mig að fara í Grundaskóla – sem er líka frábær skóli,“ segir Bakir en hann bróður sem er fæddur árið 1999 og systur sem er fædd árið 2003.
Mér finnst allt sem tengist stærðfræði skemmtilegt
Bakir fékk eins og áður segir verðlaun fyrir ástundun og framfarir við útskriftarathöfnina í FVA í desember. „Ég held að það séu meiri en helmingslíkur á því að ég fari í tölvunarfræðinám við Háskólann í Reykjavík næsta haust. Mér finnst allt sem tengist stærðfræði skemmtilegt og einnig eðlisfræði. Vissulega langar mig að gera eitthvað meira með fótboltann en ég verð að bæta mig í mörgu og æfa meira – og sjá síðan til hvert það leiðir mig. Ég verð að vinna hjá BM Vallá næstu mánuðina við að steypa loftplötur líkt og ég hef gert á sumrin. Það kemur alveg til greina að fara í nám sem tengist byggingafræði – en ég er ekki alveg búinn að ákveða mig.“
Eins og áður segir hefur Bakir og fjölskylda hans fengið aðstoð frá mörgum aðilum hér á Akranesi. „Hún „Púsla“ (Rannveig Benediktsdóttir) hefur reynst okkur gríðarlega vel allt frá því við komum fyrst – og hún er enn að aðstoða okkur við margt. Hún ásamt Lúlla þjálfara hafa reynst okkur gríðarlega vel líkt og margir aðrir.“
Bjartar sumarnætur Íslands hafa reynt aðeins á þolinmæðina hjá Bakir frá því hann kom til landsins. „Það er alls ekki erfitt að búa á Íslandi og það eina sem mér fannst erfitt að venjast var að sofa þegar það var bjart á nóttunni á sumrin. Annars hefur þetta bara gengið vel og mér líkar vel hérna á Akranesi,“ sagði Bakir að lokum við skagafrettir.is