Gestir Guðlaugar njóta náttúrunnar með ýmsum hætti – sundskýlan týndist


Guðlaugin nýtur mikilla vinsælda og á góðviðrisdögum eru gríðarlega margir leggja leið sína á Langasand til þess að upplifa þá kosti sem þetta svæði hefur upp á að bjóða.

Um s.l. helgi fór einn gestur alla leið í því að upplifa náttúruna samkvæmt heimildum Skagafrétta.

Gesturinn stakk sér til sunds við Langasand. Hann laumaði sér síðan úr sundskýlunni og setti hana upp á hendina til „geymslu“ á meðan hann naut þess að synda nakinn í sjónum.

Upplifun mannsins hefur án verið góð því hann áttaði sig ekki á því að sundskýlan var týnd og tröllum gefin þegar hann ætlaði að bregða sér í hana að sundi loknu. Gesturinn lét þetta óhapp ekki á sig fá og bar sig nokkuð vel þegar hann kom í land á ný.

Ekki fylgir sögunni hvernig aðrir gestir tóku þessari náttúrupplifun mannsins en engum varð meint af.

Því miður náðist ekki mynd af þessari sundferð en við látum fylgja mynd frá árinu 2006 sem Guðni Hannesson tók af hressum sundköppum í sjónum við Langasand.