Tæknimessa fór fram í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi í byrjun október. Þangað lögðu um 700 grunnskólanemar frá öllu Vesturlandi leið sína.
Á Tæknimessunni fór fram kynning hjá FVA á iðnámsbrautum skólans. Þar að auki kynntu öflug iðn – og hátæknifyrirtæki á Vesturlandi starfssemi sína.
Heiðar Mar Björnsson, kvikmyndagerðarmaður á Akranesi, var með kynningu á sínu starfi í Bíóhöllinni – og sýndi hann stuttmynd sem hann lauk við nýverið.
Hlédís Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri Tæknimessunnar. Hún segir í viðtali á vef SSV að allt hafi gengið vel fyrir sig. Nemendurnir hafi verið til fyrirmyndar í framkomu og vonar hún að Tæknimessan kveiki áhuga hjá nemendum að fara í iðnnám.
Tæknimessan er er hluti af áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vesturlands sem ber heitið „Nýsköpun, frumkvöðlar og tæknimenntun“ og er fjármögnuð af Sóknaráætlun. Tæknimessan er samstarfsverkefni Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi og Sóknaráætlunar Vesturlands.