„Siggi Jóns“ verður áfram hjá ÍA – tekur við nýju starfi


Sigurður Jónsson verður áfram í herbúðum ÍA sem þjálfari en hann tekur við nýju starfi hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Sigurður hefur á undanförnum vikum verið orðaður við fjölmörg lið en í dag var greint frá ráðningu hans sem afreksþjálfara KFÍA.

Með starfi afreksþjálfara vill KFÍA leggja enn meiri áherslu á afreksþjálfun og enginn er betur til þess fallinn að skipuleggja það starf en Sigurður Jónsson. Markmið afreksþjálfara verður að móta knattspyrnumenn framtíðarinnar og tryggja endurnýjun á meðal uppaldra leikmanna.

Sigurður hefur verið lykilmaður í starfi félagsins undanfarin ár, sem aðstoðarþjálfari mfl. karla, þjálfari 2. flokks karla ásamt því að sinna öðrum verkefnum á vegum KFÍA.

„Ég er Skagamaður, þetta er klúbburinn minn og ég er mjög stoltur að fá tækifæri til að móta þetta áhugaverða starf sem klúbburinn hefur falið mér“ segir Sigurður Jónsson. „Ég hef mikinn metnað fyrir því að móta afreksstarf knattspyrnufélagsins til framtíðar og ég vona að fá tækifæri til þess að móta unga leikmenn sem munu skila sér inn í íslenska sem og erlenda knattspyrnu. Ég hlakka mikið til.“

Nánar á vef KFÍA.