Samtök rafverktaka (SART) og Rafiðnaðarsamband Íslands (RSÍ) hafa frá haustinu 2016 stutt vel við bakið á nemendum í rafiðnaði í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi.
Í dag komu fulltrúar frá þessum aðilum í heimsókn í FVA og afhentu þeim nemendum sem hófu nám í grunndeild FVA í haust spjaldtölvur sem munu nýtast vel í námi og starfi. Frá þessu er greint á vef FVA.
Samtök rafiðnaðarmanna hafa um langt skeið unnið að gerð rafræns námsefnis á www.rafbok.is sem nemendur geta notað gjaldfrjálst í gegnum allt námið og með þessari höfðinglegu gjöf er aðgengi rafiðnnema að þessu námsefni tryggt.
Um 60 nemendur stunda nám í rafiðngreinum við FVA og verður að teljast afar verðmætt fyrir þau að hafa greiðan aðgang að gjaldfrjálsu námsefni á þennan hátt.