Hugmyndir Brekkubæjarskóla nýttar í portúgölsku skólastarfi


Á dögunum sóttu Heiðrún Hámundardóttir, tónmenntarkennari og Bryndís Böðvarsdóttir fund á vegum Erasmus+ í Faro í Portúgal. Er það liður í tveggja ára verkefninu „And Action“ þar sem áhersla er á kvikmyndir og kvikmyndagerð.

Verkefni skólanna sem taka þátt er að gera fréttaþátt um viðfangsefni er tengjast nærumhvefinu. Í þessari ferð þeirra skipulögðu þær áframhaldið en verkefnið er komið hálfa leið.

Þetta kemur fram á vef Brekkubæjarskóla.

„Í Faro heimsóttum við skóla og hittum kennara sem komu í heimsókn til okkar í Brekkubæjarskóla í vor. Þau tóku sérstaklega eftir yndislestrinum hjá okkur á morgnanna og voru svo yfir sig hrifin af hugmyndinni að síðan hafa allir morgnar byrjað á lestri. Kennararnir hafa látið orðið berast kynnt yndislestur í skólum í kring svo hugmyndir Brekkubæjarskóla eru komnar í marga skóla úti í Portúgal.“ segir Heiðrún.

Hún bætir því við að verkefnið skipti miklu máli fyrir starfsþróun kennara og skólasamfélagið í heild græði mikið á alþjóðlegri þátttöku. Skemmtilegast sé að finna áhuga annarra á að koma til Íslands og sú staðreynd að við stöndum okkur vel á marga vegu.

Í byrjun mars fáum við í Brekkubæjarskóla heimsókn frá Þýskalandi en kennarar þess hóps hafa komið þrisvar sinnum áður og þykir notalegt að koma á Akranes og í Brekkubæjarskóla.

„Þau þarna úti vilja alltaf koma til Íslands. Þeim finnst svo frábært að koma. Okkur hættir til að þykja okkar hversdagsleiki ekki eins spennandi og þeirra sem koma frá útlöndum en gestum okkar finnst svo frábært að fá að hjóla í sund, þau sjá að húsin og bílarnir eru opnir og veruleiki okkar reynist afar spennandi.“ bætir Heiðrún við.

Hér fyrir neðan er ítarlegt viðtal við Bryndísi í Podcasti frá skólanum.