Hilmar Halldórsson er sáttur við lífið og tilveruna í Albany


Þór Llorens Þórðarson skrifar:

„Skólinn sem ég er í heitir  The College of Saint Rose og það eru um 2.500 nemendur í skólanum sem er staðsettur í borginni Albany í New York fylki. Borgin er höfuðstaður fylkisins og þetta er bara flott borg, The College of Saint Rose er einkaskóli.

Í Albany eru um 90.000 íbúar og hér er allt til alls. Mikið að gerast og það var lykilatriði fyrir mig þegar kom að því að velja háskóla samhliða því að spila fótbolta,“ segir Skagamaðurinn Hilmar Halldórsson sem er að upplifa ævintýri sem háskólanemi í nýju landi og framandi aðstæðum. 

Hilmar er fæddur árið 1999 og lauk hann námi við FVA vorið 2019. Hann lék knattspyrnu upp alla yngri flokka ÍA og hefur fengið nokkur tækifæri með meistaraflokki. S.l. sumar lék hann með liði Kára í 2. deildinni. Hilmar er hæstánægður með dvölina í Bandaríkjunum og í undanförnum tveimur leikjum hefur hann reimað á sig markaskóna og skorað fjögur mörk. 

Fjögur mörk i tveimur leikjum 

„Það hefur gengið vel hjá mér persónulega í síðustu tveimur leikjum. Ég skoraði tvö mörk í 4-3 tapleik gegn Stonehill í síðustu viku. Á laugardaginn skoraði ég bæði mörkin í 2-0 sigri gegn Bentley. Ég fékk viðurkenningu sem „íþróttamaður vikunnar“ (Athlete of the week)  í skólanum og deildinni.“

Deildin sem lið Hilmars er í heitir Northeast 10. Eins og er þá er liðið í fjórða sæti af alls 13 liðum. 

„Árangurinn hefur verið ágætur en það er alltaf hægt að gera betur. Við höfum tapað gegn slökum liðum en unnið sterk lið líka. Staðan er þannig að við erum nokkuð öruggir um að komast í úrslitakeppnina. Það var markmiðið. Breiddin í liðinu er góð, það eru leikmenn frá mörgum löndum. Svíþjóð, Þýskalandi, Nígeríu, Ísrael og Brasilíu svo eitthvað sé nefnt.“

Það er ekkert lúxúslíf hjá Hilmari á heimavistinni þar sem hann býr í herbergi sem hann deilir með öðrum, 

„Ég bý á heimavistinni sem er mjög nálægt skólanum. Það eru tveir saman í herbergi á vistinni. Þetta eru engar „svítur“ en það fer vel um okkur félagana. Herbergisfélagi minn heitir Nick Espeut og hann er bandarískur. Við náum mjög vel saman og ég er sáttur.“

Fyrsti Íslendingurinn í The College of Saint Rose

Hilmar er fyrsti íslenski nemandinn í The College of Saint Rose og er því brautryðjandi á því sviði. 

„Helsti kosturinn við að vera eini Íslendingurinn er að ég næ þá betri tökum á enskunni. Það er enginn að tala við mig íslenskuna hérna. 

„Það er gott að vera hérna og rútínan er nánast alltaf eins. Morgunmatur um kl. 8 að morgni, æfing eftir morgunmat og síðan tekur við skóli. Á kvöldin er ég yfirleitt að læra, ef ekki þá slaka ég bara á. Um helgar reyni ég að gera eitthvað skemmtilegt.“ 

Að lokum var Hilmar inntur eftir því hver munurinn væri á því að leika á Íslandi eða með háskólaliði í Bandaríkjunum. 

„Það eru meiri gæði og miklu betri leikskilingur í fótboltanum heima á Íslandi. Sumir leikmenn, og þá sérstaklega þeir bandarísku, sem hlaupa bara eitthvað með bolta, og gefa hann aldrei. Það er stundum alveg helvíti þreytt. Evrópustrákarnir eru með betri skilning á leiknum og betra auga fyrir leiknum. Þeir bandarísku eru oftar en ekki mjög sterkir líkamlega og þannig jafnast þetta út,“ segir Hilmar Halldórsson við skagafrettir.is.  

Ættartréð:

Foreldrar Hilmars eru Halldór Hallgrímsson og Guðrún Hróðmarsdóttir. Systkini hans Hilmars eru Hróðmar og Sigurbjörg en þau búa á Akranesi líkt og foreldrar þeirra.