Spennandi lokakafli framundan hjá Valdís Þóru


Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Leyni á Akranesi, á eftir að keppa á tveimur mótum á þessu tímabili á LET Evrópumótaröðinni. Þetta kemur fram á golf.is

Í lok nóvember, 28.-1. desember fer fram mót á Spáni, Andalucia Costa del Sol, á Aloha vellinum og lokamót tímabilsins á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki fer síðan fram 5.-8. desember í Afríkuríkinu Kenía.

Mótin á Spáni og í Afríku verða 15. og 16. mótið á LET Evrópumótaröðinni hjá Valdísi Þóru á þessu tímabili. Hún hefur komist í gegnum niðurskurðinn á 8 mótum af alls 14. Besti árangur hennar er 5. sætið á þessu tímabili.

Valdís Þóra er sem stendur í 82. sæti stigalista LET Evrópumótaraðarinnar. Hún er í harðri baráttu um að halda keppnisrétti sínum á mótaröðinni en 70 efstu sætin tryggja öruggt sæti á LET Evrópumótaröðinni á næsta tímabili. Valdís Þóra er samt sem áður í ágætri stöðu hvað næsta tímabil varðar.

Í sætunum fyrir ofan hana eru fjölmargir keppendur sem ná ekki að uppfylla lágmarksþátttöku á mótum á LET Evrópumótaröðinni. Keppendur þurfa að skrá sig til leiks á 6 mótum að lágmarki á hverju tímabili til að halda keppnisrétti sínum. Margir af þeim sem ná ekki að uppfylla þessar kröfur eru kylfingar sem eru ofarlega á LPGA atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum og þurfa því ekki á LET keppnisréttinum að halda.

Miðað við þá stöðu sem er á stigalista LET fyrir mótið í lok nóvember á Spáni er Valdís Þóra í kringum 70. sætið á listanm, þegar búið er að taka út þá leikmenn út af listanum sem eru fyrir ofan hana og uppfylla ekki kröfurnar um lágmarksþátttöku.

Lokamótin eru því mikilvæg fyrir Valdísi Þóru hvað stöðu hennar á stigalistanum varðar.

Árangur Valdísar á LET á þessu ári er hér fyrir neðan.