Skagamaðurinn Jón Leó Ríkharðsson kemur að uppbyggingu á stærsta sólarorkuveri Svíþjóðar.
Alls verða 50.000 sólarspeglar settir upp meðfram þjóðvegi E20 fyrir utan bæinn Strängnäs.
Jón Leó starfar hjá fyrirtækinu HSB Södermanland og er verkefnið unnið í samstarfi við EnergiEngagemang.
HSB eru félagssamtök sem hefur það m.a. að markmiði að byggja upp hagkvæmt húsnæði. Alls eru 650.000 félagsmenn í HSB og félagið er með 4.000 íbúðafélög á sínum vegum.
Félagar í HSB fá tækifæri til þess að kaupa hlut í verkefninu.
„Það er stórkostlegt að þetta verkefni sé að verða að veruleika. Það er tvöfaldur ávinningur með þessu verkefni. Íbúðafélög á okkar vegum fá tækifæri til þess að kaupa raforku á hagstæðu verði og á sama tíma leggur félagið sitt af mörkum til þess að búa til umhverfisvæna raforku,“ segir Jón Leó m.a. í fréttatilkynningu sem HSB sendi frá sér og er til umfjöllunar í flestum fjölmiðlum í Svíþjóð.
Í Svíþjóð hefur ríkisstjórnin sett sér það markmið að árið 2040 verði öll orka sem standi Svíum til boða endurnýtanleg og umhverfisvæn.
Sólarorkuverið sem Jón Leó kemur að fer af stað í mars árið 2020. Gert er ráð fyrir að sólarokurverið geti framleitt 20 megawött. Og sú orka ætti að geta nýst allt að 7.500 íbúðum. Sólarorkuverið verður tvöfalt stærra en það sem er stærst í dag í Svíþjóð.
Jón Leó er fæddur árið 1965 á Akranesi. Foreldrar hans voru þau Hallbera G. Leósdóttir og Ríkharður Jónsson. Jón Leó á fjórar eldri systur sem heita Ragnheiður, Hrönn, Ingunn og Sigrún.