Gríðarleg svifryksmengun er í Hvalfjarðargöngunum og má líkja ástandinu við borgir á borð vð Nýju-Delí á Indlandi og Peking í Kína. Þetta kom fram í máli Gísla Guðmundssonar jarðfræðings hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, á rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar sem haldin var síðastliðinn föstudag. Morgunblaðið greinir frá.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir frá því á fésbókarsíðu sinni að meðalstyrkur svifryks (PM10) í Hvalfjarðargöngunum hafi verið 186 míkrógrömm á rúmmetra
fyrstu fjóra mánuði ársins 2017, sem allir eru á nagladekkjatímabilinu. Styrkurinn var svipaður á sama tímabili árið 2016. „Til samanburðar var ársmeðaltalið í Nýju Delí 223 míkrógrömm fyrir PM10 og í Peking „ekki nema“ 99 míkrógrömm að jafnaði, árið 2016,“
Á hverjum sólarhring eyðast um fjögur bíldekk í Hvalfjarðargögnunum, sem samsvarar 12 lítrum af dekkjagúmmísliti, eða um 13.800 grömmum. Gísli Guðmundsson birti helstu niðurstöður úr rannsóknum sem stóðu yfir frá 17. janúar 2017 til 13. júní 2018.
Uppruna svifryksins má að mestu rekja til fylliefna í malbiki en Gísli segir augljóst að nagladekk eigi stóran þátt í magni svifryks í Hvalfjarðargöngunum enda mun meira svifryk í göngunum að vetrarlagi en sumarlagi. Hlutur dekkjaslits í uppruna svifryks er verulegur, að mati Gísla.
Magn svifryksins kemur Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi hjá Veðurvaktinni, á óvart. Og veltir hann því fyrir sér í fésbókarfærslu sinni hvort setja ætti upp rykgrímu þegar keyrt er undir fjörðinn?