Nemendur FVA til fyrirmyndar í vel heppnaðri námsferð í Berlín


Hópur nemenda frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi fór á dögunum í heimsókn til Berlín í Þýskalandi. Hópurinn dvaldi i borginni í fimm daga en ferðin var hluti af valáfanga í þýsku.

Kristín Luise Köttenheinrich, þýskukennari, skipulagði ferðina og fór fyrir hópnum ásamt Steingrími Benediktssyni, kennara. Um 25 nemendur fóru í ferðina til Berlínar.

Að sögn fararstjóranna var ferðin sérlega vel heppnuð en hópurinn gekk um Berlín þvera og endilanga – frá austri til vesturs.

„Nemendurnir fengu að kynnast öllum merkustu stöðunum, kíktu í þinghúsið, upplifðu ljósahátíðina (Festival of Lights) og fóru á söfn. Sumir fóru í dómkirkjuna en aðrir í sjónvarpsturninn (sumir í bæði) og skoðuðu það sem eftir stendur af Berlínarmúrnum ásamt því að fræðast um lífið í Berlín á tímum múrsins en 9. nóvember eru einmitt 30 ár liðin frá því að múrinn féll. Nemendur FVA voru til fyrirmyndar eins og ávallt og nutu lífsins í þessari dásamlegu borg,“ segir í frétt á heimasíðu FVA.