Knattspyrnukappinn Ríkharður Jónsson er eini Skagamaðurinn sem hefur fengið þann heiður að vera tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ. Ríkharður og handknattleikskonan Sigríður Sigurðardóttir voru tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2015.
Ríkharður er einn fremsti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi en hann lék 33 landsleiki og skoraði í þeim 17 mörk. Auk þess varð hann Íslandsmeistari sex sinnum með ÍA en hann lék 185 leiki með Skagamönnum og skoraði í þeim 139 mörk.
Ríkharður lést þann 14. febrúar 2017 en hann var fæddur þann 12. nóvember árið 1929. Ríkharður hefði því fagnað 90 ára afmæli sínu í dag.
Sigríður var kjörin íþróttamaður ársins 1964, fyrst kvenna. Sigríður var ein fremsta handknattleikskona Íslands og var fyrirliði landsliðsins sem varð Norðurlandameistari árið 1964.
Í tilefni 100 ára afmælis ÍSÍ samþykkti framkvæmdastjórn ÍSÍ að setja á stofn Heiðurshöll ÍSÍ.
Heiðurshöll ÍSÍ er óáþreifanleg höll afreksíþróttafólks og afreksþjálfara Íslands, í ætt við „Hall of Fame“ á erlendri grundu.
Framkvæmdastjórn ÍSÍ útnefnir einstaklinga í Heiðurshöll ÍSÍ eftir reglugerð þar að lútandi og er Heiðursráð ÍSÍ ráðgefandi aðili varðandi tilnefningar.
Með þessu verkefni vildi ÍSÍ skapa vettvang til að setja á frekari stall okkar framúrskarandi fólk og skapa minningar í máli og myndum af þeirra helstu afrekum.
Sá fyrsti sem komst í Heiðurshöllina var Vilhjálmur Einarsson en auk hans eru þar: Bjarni Friðriksson, Vala Flosadóttir, Sigurjón Pétursson, Jóhannes Jósefsson, Albert Guðmundsson, Kristín Rós Hákonardóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Guðmundsson, Gunnar Huseby, Torfi Bryngeirsson, Guðmundur Gíslason, Geir Hallsteinsson, Jón Kaldal, Skúli Óskarsson og Hreinn Halldórsson.