Þór Llorens samdi við Selfoss – „gott starf í gangi hjá félaginu“


Skagamaðurinn Þór Llorens Þórðarson hefur ákveðið að leika með liði Selfoss áfram en hann gerði tveggja ára samning við félagið á dögunum.

Þór var lánaður til Selfoss á síðustu leiktíð en hann lék vel með liðinu sem vinstri bakvörður. Þór lagði upp 12 mörk og skoraði sjálfur 5 en hann lék að mestu sem vinstri bakvörður – en einnig sem kantmaður á síðari hluta tímabilsins. Þór var einn af þremur leikmönnum Selfoss sem var valinn í úrvalslið 2. deildar 2019.

Selfoss endaði í 3. sæti í 2. deild á síðustu leiktíð en þjálfari liðsins er Skagamaðurinn Dean Martin.

Þór skrifaði undir nýja samninginn á herrakvöldi Selfoss s.l. föstudag.

„Það er gott starf í gangi hjá félaginu og mér var strax vel tekið, og mér líður vel í hópnum og Dean þjálfari hefur hjálpað mér mikið. Við vorum mjög nálægt því að komast upp í haust. Ég vildi því koma hingað aftur og taka þátt í því að hjálpa Selfossliðinu að komast upp í Inkasso-deildina á næsta ári. Það voru aðrir möguleikar í stöðunni fyrir mig, og þar á meðal að vera áfram í ÍA. Það skipti mestu máli fyrir mig að velja það sem hentar best á þessum tímapunkti á ferlinum. Selfoss var besti kosturinn að mínu mati til að þroskast enn frekar sem leikmaður og taka framförum. Ég hlakka til að flytja á Selfoss í byrjun janúar og jafnframt vil ég þakka ÍA fyrir það sem félagið hefur gert fyrir mig á undanförnum árum. Ég óska líka strákunum í 2. flokki góðs gengis í síðari leiknum gegn Derby County,“ sagði Þór Llorens í samtali við skagafrettir.is