Litla Hryllingsbúðin slær í gegn: „Stórskemmtileg og metnaðarfull sýning“


Skagaleikflokkurinn er allsráðandi á samfélagsmiðlum á Akranesi og nærsveitum eftir frumsýninguna á Litlu Hryllingsbúðinni sem fram fór í gær.

„Skemmtileg sýning, mjög flottur söngur, búningarnir vel gerðir og sjálf plantan fer á kostum í mörgum útgáfum. Í heildina stórskemmtileg og metnaðarfull sýning sem er Skagaleikflokknum til sóma. Heiðmar Eyjólfsson, sem leikur Baldur var stórskemmtilegur líkt og Lára Magnúsdóttir sem leikur hana Auði. Það einkennir sýninguna er hversu góðir söngvarar hafa valist í þetta frábæra verkefni,“ sagði útsendari Skagafrétta sem var á frumsýningunni. „ Það eina sem hægt er að kvarta yfir er að poppið var búið í hléinu. Það þarf að keyra þessar poppvélar í gang fyrir næstu sýningar.“

„Við erum í skýjunum yfir viðtökunum. Hamingjuóskir og þakkir til allra sem tóku þátt í að láta þessa glæsilegu sýningu verða að veruleika,“ segja forsvarsmenn Skagaleikflokksins á fésbókarsíðu þeirra.

Uppselt er á næstu sýningar, sunnudaginn 17. nóv og aðeins örfá sæti laus þriðjudaginn 19. nóv og föstudaginn 22. nóv.

Söngleikurinn fær mikið hrós frá mörgum og hér eru nokkur dæmi af Instagram og fésbókinni.

Myndir frá Skagaleikflokknum sem Gunnar Viðarsson tók.