Viktor Elvar gefur kost á sér í stjórn Golfsambands Íslands


Skagamaðurinn Viktor Elvar Viktorsson gefur kost á sér í stjórn Golfsambands Íslands á þingi GSÍ sem fram fer um næstu helgi.

Alls gefa ellefu einstaklingar kost á sér í stjórnarkjörið. Alls fá tíu sæti í stjórn GSÍ en Haukur Örn Birgisson forseti er sjálfkjörinn sem ellefti stjórnarmaður – þar sem að ekkert mótframboð til forseta GSÍ barst.

Skagamenn og Vestlendingar hafa ekki verið áberandi í stjórn GSÍ á undanförnum áratugum Og er Viktor Elvar sá fyrsti í um 20 ár sem gefur kost á sér í stjórn GSÍ.

Þetta kemur fram í frétt á golf.is þar sem að frambjóðendurnir tíu eru kynntir til sögunnar.

Kynning Viktors Elvars er hér fyrir neðan:


Viktor Elvar Viktorsson.

Ég er 42 ára gamall skagamaður sem byrjaði í golfi 11 ára gamall á Garðavelli sem þá var 9 holur. Á Akranesi er einnig önnur íþrótt sem nokkrir hafa heyrt af og heillaði hún meira á mínum yngri árum. Því var gert hlé á golfiðkun í kringum 15 ára aldurinn og „hin” íþróttinn stunduð.

Líklega er það ein af mínum verstu ákvörðunum fram til þessa a.m.k. En eftir að hinni íþróttinni sleppti í kringum tvítugt hefur golfið átt hug minn allann þegar kemur að íþróttum.

Ég var í GK og GKG byrjun aldarinnar en eftir að ég flutti aftur á Skagann árið 2004 hef ég verið í GL. Ég sat í stjórn GL frá árinu 2005 til ársins 2010 þar af var ég formaður klúbbins frá árinu 2008-2010.

Ég var mótsstjóri Íslandsmótsins í golfi árið 2015 sem fram fór á Garðavelli á Akarnesi. Ég hef verið í mótanefnd GL frá árinu 2010 til ársins 2018 og ég aðstoðaði við þjálfun barna og unglinga hjá GL sumarið 2017. Ég hef verið í mótanefnd GSÍ undanfarin 2 ár auk þess sem ég sótti Landsdómarapróf í golfi nú í vor og hef því haft þann ágæta titil frá því í vor. Þannig að ég hef snert á nokkrum flötum heimi golfsins á undanförnum árum.

Ég er kvæntur Ingibjörgu Stefánsdóttur og eigum við 2 börn. Öll fjölskyldan stundar golf og hafa undanfarin sumur farið að mestu í það að skutlast á milli golfvalla þar sem börnin hafa verið við keppni. Óhjákvæmilega hef ég því mikin áhuga á barna og unglingastarfi og tel að það sé grunnurinn að því að halda úti þróttmiklu og góðu starfi innan golfhreyfingarinnar almennt. Því með góðu barna og unglingastarfi ölum við upp framtíðar kylfinga sem bæði verða okkar afrekskylfingar sem og almennir kylfingar, en báðir hópar eru nauðsynilegir golfhreyfingunni á Íslandi.