„Mikilvægt að hafa gaman af fótboltanum þegar maður er ungur“


Ísak Örn Elvarsson skrifar:

„Það var markmið hópsins að komast áfram úr þessum riðli og tilfinningin er því frábær. Við höfum lagt mikið á okkur til að komast í milliriðilinn og það tókst,“ segir Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson við skagafrettir.is. Ísak Bergmann og Jón Gísli Eyland Gíslason léku stórt hlutverk með U-19 ára landsliði Íslands í knattspyrnu í undankeppni U-19 Evrópumótsins.

Í byrjun desember verður dregið í riðla og þá skýrist hvaða þjóðir verða mótherjar Íslands í keppninni. Milliriðlarnir fara síðan fram í mars á næsta ári.

Ísland lék gegn Belgíu, Grikklandi og Albaníu í undankeppninni og voru leikirnir áhugaverðir og spennandi.

Fyrstu mótherjar Íslands var sterkt lið Belgíu og þar skoraði Ísak Bergmann mark í upphafi leiksins sem var dæmt af.

„Þeir skoruðu síðan tvö mörk og voru í raun bara betri en við. Það var líka erfitt hjá okkur eftir að við misstum mann útaf með rautt spjald. Þá var þetta erfið brekka. Við náðum að koma okkur í rétt hugarfar gegn Grikklandi þar sem við sigruðum 5-2. Í lokaleiknum gegn Albaníu vorum við ekki góðir í fyrri hálfleik og vorum 2-0 undir. Í síðari hálfleik sýndum við frábæran karakter og gæði. Þar skoruðum fjögur mörk og lönduðum 4-2 sigri,“ segir Ísak Bergmann en hann leikur sem atvinnumaður hjá Norrköping í Svíþjóð þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gamall. Hann er fæddur árið 2003.

Skagamaðurinn segir að hlutverk hans í landsliðinu sé mismunandi eftir því hvaða leikkerfi Þorvaldur Örlygsson þjálfari U-19 ára landsliðsins stillir upp.

„Þegar við erum í 4-4-2 þá er ég frammi með Andra Lucasi Guðjohnsen og ef við erum í 5-3-2 þá er ég einn af þremur miðjumönnum liðsins. Mér finnst báðar stöðurnar skemmtilegar, að vera framliggjandi og skora mörk eða vera á miðri miðjunni.

Ísak Bergmann var inntur eftir góðum ráðum fyrir yngri leikmenn úr röðum ÍA varðandi það að komast sem allra lengst í fótboltanum.

„Hugarfarið skiptir mestu máli, þú þarft að leggja á þig gríðarlega vinnu og velja rétt, fórna ýmsu í staðinn. Það er samt mikilvægt að hafa gaman af fótboltanum þegar maður er ungur. Ef þig dreymir um að komast langt þá maður að elta drauminn, ekki láta neinn stoppa þig, sama hvað,“ segir Ísak Bergmann Jóhannesson við skagafrettir.is