„Við unnum Sunshine State Conference keppnina. Þetta er í fyrsta sinn sem skólinn fer í úrslit og í fyrsta sinn sem þetta lið vinnur titil. Næst á dagskrá er að fara í NCAA keppnina eðe Nationals. Þá förum við og keppum við lið úr öðrum deildum. NCAA tournament er eins og bikarkeppnin heima á Íslandi. Ef við töpum þá erum við úr leik,“ segir Aníta Sól Ágústsdóttir frá Akranesi sem er að gera góða hluti með liði sínu Embry Riddle í Bandaríkjunum.
Hvar býrðu og hvernig er lífið þarna úti?
Ég bý í Daytona Beach í Flórída, sem er í klukkutíma frá Orlando. Ég er í íbúð með kærastanum mínu, Guðmundur Sigurbjörnsson heitir hann, og er líka Skagamaður. Garðar, íslenskur strákur, býr líka í íbúðinni með okkur.
Það er margt hægt að gera í Dayton í frítímanum þegar maður er ekki að læra eða spila fótbolta. Það er mjög „næs“ að ströndin er bara rétt hjá. Leikmenn úr bæði stelpu – og strákaliðinu eru dugleg að hittast og gera eitthvað skemmtilegt saman.
Hvað ertu að læra í skólanum?
Ég er að læra Human Factors Psychology – sem á íslensku gæti verið sálfræði um mannlega þáttinn. Þetta er í raun um samband manneskjunnar og tölvu. Ég er að læra hvernig hægt er að gera tæknina betri og öruggari fyrir okkur að nota.
Er einhver munur á því að æfa og spila með Embry Riddle eða ÍA?
„Það er mikið lagt upp í líkamlega ástandinu hérna og meira en hjá ÍA. Það er meira tempó á æfingum og í leikjum hérna úti en heima á Akranesi. Við erum allar á svipuðum aldri og leikskilningurinn er því aðeins meiri að mínu mati hjá þessu liði. Líklega vegna þess að það eru svo margir ungir leikmenn í mfl. ÍA sem eiga bara eftir að þroskast og verða enn betri.“
Hvernig var ferlið hjá þér að komast út í háskóla – og hverjir aðstoðuðu þig við það?
„Ég nýtti mér þjónustu Soccer and Education til þess að komast út í háskóla hér í Bandaríkjunum og spila fótbolta samhliða háskólanámi. Það er ómetanlegt að fá slíka aðstoð, þau sáu um allt í þessu ferli og komu mér í samband við þjálfara í Bandaríkjunum. Ég var fyrst í 2 ár í University of South Alabama áður en ég kom hingað til Embry Riddle. Soccer and Education aðstoðuðu mig einnig að skipta um skóla þegar ég taldi að það væri besta lausnin.“
Hver er Aníta Sól?
Ég er 21 árs Skagastelpa, er fædd þar og aldist þar upp. Foreldrar mínir eru Margrét Inga Guðbjartsdóttir og Ágúst Hrannar Valsson. Yngri systkini mín eru Elísa Eir (19 ára) og Arnór Valur (12 ára).