Er þessi saklausa mynd það fyndnasta á Internetinu í dag?


Það er ekki oft sem að skagafrettir.is fjalla um málefni sem flokka má undir „erlendar“ fréttir en í þessu tilviki verður gerð undantekning. Það var ekki hægt að sleppa þessu og það er einhver Skagatenging í þess öllu saman.

Vinahópur, sem tengist m.a. golfíþróttinni sterkum böndum, hefur á undanförnum árum verið með árlegt matarboð þar sem veislugestir mæta í ýmsum gervum. Að þessu sinni var hugmyndin einföld en afar skemmtileg eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.

Matarboðsgestirnir höfðu fyrir því að klæða sig nánast eins og á mynd sem tekin var af ríkisstjórn Íslands – eins hún er skipuð þessa stundina.

Eins og sjá má á myndinni heppnaðist „brandarinn“ ákaflega vel og lítið annað hægt að segja annað en vel gert og til hamingju.

Eins og áður segir er einhver Skagatenging í þessu öllu saman. Skagakonan Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir er að sjálfsögðu ráðherra í ríkisstjórn Íslands en hún er þriðja frá vinstri á eftri myndinni.

Á neðri myndinni er m.a. fyrrum leikmaður mfl. ÍA í knattspyrnu fyrir miðri myndi í hlutverki Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. Það er Hermann Geir Þórsson, Grundfirðingur, sem lék um tíma með ÍA og var nemandi í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Guðjón Karl Þórisson, úr Borgarnesi, og bróðir tónlistarmannsins Birgis Þórissonar, sem búsettur er á Akranesi kemur einnig við sögu í þessu listaverki. Guðjón Karl er í hlutverki sveitunga síns úr Borgarfirðinum, Ásmundar Einars Daðasonar, en í öðru sæti frá vinstri á myndinni.

Eins og áður segir er mikil golftenging í þessu vinahóp. Næst lengst til hægri er Nína Björk Geirsdóttir, Íslandsmeistari í golfi 2007, og núverandi Íslandsmeistari í flokki +35 ára og eldri. Nína er í hlutverki Lilju Alfreðsdóttur ráðherra. Við hlið Nínu situr eiginmaður hennar, Pétur Óskar Sigurðsson. Ólafsvíkingurinn Guðlaugur Rafnsson, fyrrum knattspyrnumaður í Skallagrím, er í erfiðu hlutverki sem sjávarútvegsráðherra Ísland. Guðlaugur fór létt með það enda hefur hann stundað sjómennsku í áratugi.

Athygli skal vakin á persónu sem lætur lítið fyrir sér fara lengst uppi til hægri á myndinni sem ritari eða eitthvað slíkt. Þar er Harpa Ómarsdóttir í hlutverki starfsmanns, en Harpa var búsett á Akranesi sem barn og unglingur.