Töluverðar breytingar verða á leikmannahóp mfl. ÍA í knattspyrnu karla á næstu leiktíð í PepsiMax-deildinni.
Einar Logi Einarsson, einn leikreyndasti leikmaður mfl. ÍA í knattspyrnu, verður ekki með liðinu á næstu leiktíð.
Einar Logi segir í samtali við skagafrettir.is að valið hafi staðið á milli aukavinnu og fótboltans.
„Ég starfa sem sjúkraflutningamaður meðfram störfum mínum sem tölvunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi. Það er krefjandi að láta þetta allt ganga upp. Sjúkraflutningastarfið og fótboltinn fór ekki alveg nógu vel saman og ég tók því ákvörðun að hætta hjá ÍA. Það er alveg útilit fyrir það að ég taki mér bara frí frá fótboltanum um óákveðinn tíma,“ sagði Einar Logi sem hélt upp á 28 ára afmæli sitt í gær, 24. nóvember.
Einar Logi lék 19 leiki á síðustu leiktíð með ÍA í PepsiMax-deildinni, og skoraði hann 3 mörk. Alls hefur hann leikið um 120 leiki fyrir ÍA í efstu og næst efstu deild á ferlinum og skorað í þeim 9 mörk. Einar Logi hefur einnig leikið með liði Kára í 4. og 3. deild, auk þess sem hann var í herbúðum HK eitt tímabil í Inkasso-deildinni.
Varnarmaðurinn Arnór Snær Guðmundsson hefur tekið við nýju hlutverki sem aðstoðarþjálfari og styrktarþjálfari. Hann gaf það út nýverið að ætlaði ekki að leika með liðinu samhliða þjálfunarstarfinu. Einnig má geta þess að varnarmaðurinn Hafþór Pétursson, sem lék sem lánsmaður hjá Þrótti Reykjavík á síðustu leiktíð, verður ekki leikmaður ÍA á næstu leiktíð en samningur hans var ekki endurnýjaður við ÍA.
Nýverið var gengið frá starfslokum Spánverjans Gonzalo Zamorano og Albert Hafsteinsson ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum.
- Sænski varnarmaðurinn Marcus Johansson er með samning við ÍA á næstu leiktíð. Í fyrstu útgáfu á þessari frétt var rangt farið með þá staðreynd og er beðist velvirðingar á því.