Bjarni Ólafsson AK 70 landaði fyrsta farmi vetrarins af kolmunna


Skagamaðurinn Gísli Runólfsson, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni AK 70, sigldi skipi sínu til hafnar í Neskaupstað í morgun með fullfermi af kolmunna. Um er að ræða fyrstu löndun vetrarins af þessari uppsjávartegund en aflinn var 1.800 tonn.

Á vef Síldarvinnslunnar segir Gísli að skipverjar á Bjarna Ólafssyni hafi byrjað vertíðina um svipað leyti fyrir ári síðan.

„Við héldum til veiða 16. nóvember og til að byrja með fór mikill tími í að leita. Í fyrstu var aflinn tregur. Við vorum að draga í 20 tíma og fengum gjarnan innan við 200 tonn í holi og allt niður í 60 tonn. Síðan fór þetta að ganga betur og í lokaholinu fengum við 300 tonn eftir að hafa dregið í sjö og hálfan tíma. Þarna var veiðin að byrja af einhverju viti. Við fengum aflann norðaustur af Færeyjum og það var samfelld blíða allan túrinn. Þetta var eins og á besta sumardegi, “ segir Gísli.

Hvað er kolmunni?

Kolmunni er uppsjávarfiskur af þorskaætt. Hann er fremur smávaxinn, rennilegur, lang- og grannvaxinn. Kolmunni er ein af 10 mest veiddu fisktegundum í heimi. Stofninn er mjög stór og er í Norðaustur-Atlantshafi aðallega veiddur í flotvörpu.