„Nóttina áður hafði verið sofið í hverju herbergi hússins“


Svona leit Vesturgata 32 út í birtingu á þessum degi fyrir 43 árum, laugardaginn 27. nóvember árið 1976,“ skrifar Haraldur Sturlaugsson á fésbókarsíðu sína í dag.

Haraldur býr í húsinu ásamt eiginkonu sinni Ingibjörgu Pálmadóttur. Haraldur rifjar upp hvað átti sér stað á þessum degi en þessi atburður fór ekki framhjá íbúum Akraness á þessum tíma.

„Tólf tonna heitavatnstankur í hluta kjallararýmis sprakk að Vesturgötu 32 laust fyrir kl. 5 að morgni. – Húsið stórskemmdist en mannbjörg varð.

Nóttina áður hafði verið sofið í hverju herbergi hússins en aðeins mæðgurnar Rannveig og Helga Ingunn sváfu þar þessa nótt. – Rannveig svaf í suðurherberginu, rétt vinstra megin við vestasta gluggann á suðurhliðinni en Helga Ingunn svaf í norðvesturherberginu.

Þegar sprengingin varð bjargaðist Helga Ingunn giftusamlega þar sem svefnherbergi hennar skemmdist lítt sem ekkert þótt suðurherbergið, þar sem Rannveig svaf, yrði fyrir miklum skemmdum og margir aðrir hlutar hússins.

Mörgum þótti það athyglisvert að á náttborðinu við rúm Helgu, sem var um þessar mundir að búa sig undir fermingu, fannst um morguninn Nýja testamentið opið við 121. sálm Davíðs.

„Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp? Hjálp mín kemur frá Drottni,……“

Um nóttina þessa hafði Sturlaugur, sonur Haraldar og Ingibjargar, sem þá voru flutt að Vesturgötu 32a, átt að fá að sofa hjá ömmu sinni en er leið á kvöldið ( þrumuveður úti um kvöldið) taldi Haraldur „betra“ að hafa litla drenginn hjá sér þessa nótt og náði í hann til ömmu hans og tók með sér heim. – Mamma Sturlaugs, Ingibjörg, var þá á næturvakt á Sjúkrahúsi Akraness.

Þegar sprengingin varð feyktist burt svefndýnan sem upphaflega hafði verið ætluð Sturlaugi litla Haraldssyni þessa nótt við hlið ömmu sinnar í rúminu og um leið rauf þrýstingurinn frá sprengingunni gólf efstu hæðarinnar og eyðilagði annað.

Í myrkrinu og vatnsgufunni reyndi Rannveig að komast úr rúmi sínu til að gæta að líðan Helgu Ingunnar en féll við það um rofin gólfin og niður í kjallara. Hún slapp að mestu við teina og járn og annað brak í fallinu en brenndist talsvert og meiddist illa á fótleggjum og þurfti að dveljast um hríð á sjúkrahúsi.

Hér sést niður í „holið“ inn af anddyri og sprungið tank-ræksnið sést greinilega niðri í kjallara. – Um miðja mynd t.h. sést dyragættin sem Rannveig gekk fram úr um nóttina og féll við það niður í kjallara.
Rannveig hafði löngum orð á því síðar hve vænt henni hafi þótt um hlýjuna og umhyggjusemina sem allir – vinir jafnt sem vandalausir – sýndu henni er þetta varð, en hún hafði þá einnig nýlega misst eiginmann sinn.