Sögulok Spalar á Akranesi – skrifstofunni lokað og merkið tekið niður


Skrifstofu Spalar á Akranesi hefur verið lokað. Síðasti starfsmaður félagsins sem átti og rak Hvalfjarðargöng, Anna Kristjánsdóttir, fylgdist með því þegar smiðir frá Trésmiðjunni Akri, Baldvin Þór Þórunnarson og Baldvin Þór Guðmundsson, tóku niður skiltið utan á húsinu s.l. mánudag.

Gylfi Þórðarson, einn af frumkvöðlum Spalar og fyrrum framkvæmdastjóri félagins, mætti og var viðstaddur sögulega stund.

Í gær, þriðjudaginn 26. nóvember, var síðasta herbergið á jarðhæðinni að Kirkjubraut 28 tæmt og þar með lauk skrifstofuhaldi Spalar.

Sagan hófst í húsakynnum Sementsverksmiðjunnar að Mánabraut 20 árið 1996 en skrifstofan var flutt að Kirkjubraut vorið 2013. Embætti ríkisskattstjóra er flutt inn á hæðina þar sem Spölur var áður.

Vegagerðin eignaðist Spöl í kjölfar aðalfundar 29. maí 2019.

Anna Kristjánsdóttir var síðasti framkvæmdastjóri félagsins Spalar allt þar tll skrifstofu á Akranesi var lokað.“

Skiltið sem tekið var niður er að sjálfsögðu eign Vegagerðarinnar líkt og annað sem félagið lætur eftir sig.

Magnús H. Ólafsson, arkitekt á Akranesi, hannaði merki Spalar. Það sást fyrst á byggingarteikningum sem hann vann að fyrir Spöl í aðdraganda gangagerðarinnar.

Bókasafn Akraness gerir merkilegum kafla í sögu byggðarlagsins skil í sérstöku „Hvalfjarðargangahorni“. Þar hefur verið komið fyrir borði sem fylgdi Speli frá upphafi, ljósmyndum og teikningu af framgangi framkvæmda við Hvalfjarðargöng 1996-1998.