Skagamennirnir Albert Hafsteinsson, fyrrum leikmaður ÍA, og Alexander Már Þorláksson, fyrrum leikmaður Kára, verða bláklæddir á næstu leiktíð sem leikmenn Fram í Inkasso-deild karla.
Albert, sem er 23 ára gamall, nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við ÍA í október á þessu ári. Hann gerði 3 ára samning við Fram nýverið.
„Ég er mjög ánægður með að vera kominn í Fram. Fram er félag með mikla sögu og það eru mjög jákvæðir og skemmtilegir hlutir í kringum klúbbinn núna og mikil uppbygging, bæði innan vallar sem utan. Það er frábært tækifæri fyrir mig að fá að taka þátt í því. Þjálfararnir eru reynslumiklir og vilja spila skemmtilegan fótbolta og vonandi nýtast mínir styrkleikar vel í þá hugmyndafræði. Ég þekki nokkra í leikmannahópnum og hópurinn er á góðum aldri. Ég tel að þetta sé rétt skref á þessum tímapunkti á mínum ferli,“ segir Albert í samtali við heimasíðu Fram.
Alexander Már er fæddur árið 1995 og er því 24 ára gamall. Hann skoraði mikið af mörkum fyrir Fjallabyggð á síðustu leiktíð eða 28 mörk í 21 leik í 3. deildinni. Liðið fór upp um deild en framherjinn hefur ákveðið að fara á gamlar slóðir en Alexander Már lék með liði Fram árið 2014 þegar liðið var í Pepsi-deildinni.