Dvalarheimilið Höfði fær varanlega rekstrarheimild fyrir fjórum hjúkrunarrýmum sem þar hafa verið rekin tímabundið sem biðrými fyrir Landspítalann. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.
Þar segir að biðrýmin fjögur á Höfða hafi verið opnuð árið 2017 og séu ætluð fólki með gilt færnimat sem tilbúið sé til útskrifar af Landspítala en bíði eftir varanlegri búsetu á hjúkrunarheimili.
Reiknað hafi verið með tímabundnum rekstri rýmanna fram að opnun nýs 99 rýma hjúkrunarheimilis við Sléttuveg í vor.
Stjórnendur Höfða og bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hafi farið þess á leit við ráðuneytið að heimila að rýmin fjögur verði hluti af almennum rekstri Höfða, enda aðstaða og mönnun fyrir hendi. Almennum hjúkrunarrýmum á Höfða fjölgi þar með úr 65 í 69 þegar samningur um rekstur biðrýmanna renni út í mars á næsta ári.