Jóhannes Karl og Arnar vilja fjölga leikjum í PepsiMax-deild karla


Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari mfl. karla í knattspyrnu hjá ÍA, vill fjölga liðunum í PepsiMax-deildinni og fjölga þar með leikjum á Íslandsmótinu. Skagamaðurinn Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, tekur í sama streng og óskar eftir „stærra“ Íslandsmóti.

Á vefmiðlinum fotbolti.net er áhugaverð samantekt þar sem að allir þjálfarar í PepsiMax-deild karla tjá sína skoðun á því hvernig best væri að breyta Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Hér má lesa samantektina í heild sinni:

Jóhannes Karl Guðjónsson.

„Ég tel það gríðarlega mikilvægt að fjölga í efstu deild. Ég myndi vilja fjölga liðunum í Pepsi-Max um tvö, 14 liða deild og spila tvöfalda umferð. Byrja mótið í byrjun apríl og nota knatthúsin sem við höfum í boði og gervigrasvellina ef grasvellirnir eru ekki klárir.

Ég er mótfallinn því að fækka liðum í efstu deild og spila þrefalda umferð. Það yrði að mínu mati röng ákvörðun og myndi gera liðum úti á landi erfiðara fyrir að keppa við stóru liðin á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölga liðum í efstu deild og efla knattspyrnuna á öllu landinu,“ segir Jóhannes Karl í viðtali við fotbolti.net.

Skagamaðurinn Arnar Bergmann Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, er einnig á sama máli. Arnar stýrði Víkingum til sigurs í bikarkeppni KSÍ 2019, Mjólkurbikarkeppninni.

Arnar Bergmann Gunnlaugsson.

„Svo sannarlega. Það er ljóst að liðin hér heima þurfa fleiri alvöru leiki. Mér sýnist í fljótu bragði að þriggja umferða 12 liða deild gæti gengið. Gott að umræðan sé komin vel af stað. Aðrir möguleikar er að auka vægi deildabikars, fjölga leikjum þar og gefa Evrópusæti fyrir sigur en mér líst best á að fjölga leikjum á Íslandsmóti . Byrja fyrr og enda seinna. Veðrið mun jú hafa mestu áhrifin sem og hversu stuðningsmenn eru tilbúnir að fara á völlinn í byrjun apríl og í október. Tel samt að eftir að komin sé reynsla að þá mun þetta ekki vera neitt mál og yrði knattspyrnunni hér heima til mikilla framdráttar,“ segir Arnar Bergmann Gunnlaugsson við fotbolti.net.