Jóhannes felldi Arnór og fór upp í efstu deild með Start í mögnuðum úrslitaleik


Það var heitt í kolunum í Noregi í gær þar sem Skagamennirnir Jóhannes Harðarson, þjálfari Start, og Arnór Smárason, leikmaður Lilleström, komu við sögu.

Jóhannes er þjálfari knattspyrnuliðsins Start frá Kristiansand, en hann tók við liðinu fyrir þremur mánuðum, þegar liðið virtist vera að tapa baráttunni um að komast upp í efstu deild.

Lilleström hefur verið í efstu deild samfellt frá árinu 1976 en Start hefur verið að rokka á milli deilda á undanförnum áratugum,

Liðin áttust við í gær í umspili um sæti í efstu deild í Noregi.

Start sigraði í fyrri leiknum 2-1 á heimavelli.

Útlitið var heldur betur dökkt hjá Start og Jóhannesi þegar 75 mínútur voru liðnar af leiknum. Lilleström var þá 4-0 yfir. Þá tók Martin Ramsland leikmaður Start til sinna ráða og skoraði þrennu fyrir gestina á aðeins sex mínútum. Og tryggði hann þar með sætið í efstu deild þar sem að Start skoraði fleiri mörk á útivelli, lokatölur 4-3.

Frábær árangur hjá Jóhannesi sem tók við liðinu í erfiðri stöðu en skilaði liðinu í efstu deild. Ekki liggur fyrir hvort Skagamaðurinn fái tækifæri til þess að halda áfram sem þjálfari liðsins.

Það er óhætt að segja að stuðningsmenn Lilleström hafi ekki tekið því fagnandi að sjá lið sitt falla um deild. Arnór Smárason lék síðustu mínúturnar í leiknum í gær og eftir leikinn fengu leikmenn lögreglufylgd þar sem að eldheitir stuðningsmenn liðsins sýndu ógnandi hegðun.

Jóhannes og Tom Nordlie, þjálfari Lilleström, eru alls ekki að fara senda hvorum öðrum jólakort á þessu ári. Þeir rifust heiftarlega á meðan leikurinn stóð yfir og einnig í leikslok. Nordlie, sem er einn þekktasti þjálfari Noregs, afrekaði að falla með tveimur liðum á þessu ári. Hann tók við Lilleström til þess að stjórna liðinu í umspilsleikjunum eftir að hafa fallið með lið Skeid í Osló.

Jóhannes sagði við fjölmiðla eftir leikinn að Nordlie hefði hagað sér eins og „hálfviti“ á hliðarlínunni á meðan leiknum stóð í gær.

Nordlie var um tíma þjálfari norska kvennaliðsins Avaldnes. Þar áreitti hann íslensku landsliðskonuna Hólmfríði Magnúsdóttur kynferðislega – en Hólmfríður sagði frá þeirri sögu í viðtölum við íslenska fjölmiðla í janúar 2018