Ýmsar viðurkenningar voru veittar á aðalfundi Golfklúbbsins Leynis sem fram fór s.l. þriðjudag.
Það má segja að kylfingar á öllum aldri hafi verið heiðraðir, sá elsti er á áttræðisaldri og sá yngsti er enn að bíða eftir bílprófinu.
Guðmundar – og Óðinsbikarinn fékk Guðni Örn Jónsson. Hann hefur stutt vel við bakið á barna – og unglingastarfi Leynis á undanförnum árum. Guðni er hér með Þórði Emil Ólafssyni fráfarandi formanni Leynis.
Valdimar Ólafsson fékk háttvísisverðlaun GSÍ en þau eru veitt ár hvert þeim kylfingi sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem Leynir vill sjá í afreksefna unglingum sínum.
Guðmundur Claxton fékk viðurkenningu fyrir mestu forgjafarlækkun hjá Leyni en Guðmundur lækkaði úr 54,0 í 18.2 á árinu 2019.
Guðmundur Sigurjónsson fékk viðurkenningu fyrir flesta spilaða hringi á árinu 2019 en þeir töldu 114 frá opnun vallar til lokunar nú í haust. Þrír kylfingar náðu að fara yfir 100 hringi á Garðavelli á árinu 2019.
Styrktarsamningur var undirritaður við afrekskylfinginn Björn Viktor Viktorsson sem í haust var valinn í afrekshóp GSÍ. Björn Viktor er einn af mörgum unglingum sem æfa og spila golf fyrir Leyni og hefur náð góðum árangri undanfarin ár og misseri. Björn Viktor er hér að handsala samninginn með Þórði Emil Ólafssyni, fráfarandi formanni Leynis.