„Ég hef ekki verið að gera mikið í söngnum í rúman áratug. Ég tók þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna árið 2006. Frá þeim tíma hef ég bara sungið fyrir mína nánustu í fjölskyldunni,“ segir Skagakonan Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir.
Skagakonan gaf nýverið út jólalag sem ber nafnið Glæddu jólagleði í þínu hjarta. Lagið er eftir Hugh Martin og Ralph Blane, og upprunalegi titill lagsins er Have Yourself a Merry Little Christmas.
Helga Ingibjörg er hógværðin uppmáluð þegar hún minnist á þátttöku sína í Söngkeppni framhaldsskólana árið 2006. Þar stóð hún uppi sem sigurvegari, 19 ára gömul, þar sem hún söng lag eftir Rolling Stones, Ruby Tuesday, með íslenskum texta eftir Ólaf S.K. Thorvalds.
„Ég er félagi í Flugfreyjukór Icelandair. Þar hef ég sungið mikið undir dyggri stjórn Magnúsar Kjartanssonar. Á síðustu þremur árum hafa margir ýtt á mig að gera meira með sönginn,“ segir Helga Ingibjörg þegar hún er innt eftir því hvað hún hefur verið að gera á undanförnum árum í söngnum.
Eins og áður segir er Helga Ingibjörg að syngja með Flugfreyjukór Icelandair.
„Kórinn minn hefur verið að undirbúa Aðventutónleika í haust og á þeim tónleikum fékk ég þann heiður að syngja einsöng – sem var skemmtileg áskorun.“
En afhverju valdi Helga Ingibjörg þetta lag?
„Þegar ég valdi lagið þá vakti upprunalega útgáfan af þessu lagi athygli mína. Það er eftir þá Hugh Martin og Ralph Blane. Mér fannst lagið passa við röddina mína. Ég mundi líka eftir því að Ómar Ragnarsson hafði þýtt textann og það var til í íslenskri útgáfu. Mig langaði að flytja þetta lag á íslensku.“
Helga Ingibjörg segir að vinnufélagar hennar hafi ýtt henni áfram í þessu verkefni og hjálpað henni mikið.
„Vinnufélagar mínir, Birgir Steinn Stefánsson og Ragnar Már Jónsson, hafa hvatt mig áfram í þessu verkefni. Raggi er með lítið og vel útbúið hljóðver í bílskúrnum hjá pabba sínum.
Lagið er tekið þar upp og Birgir Steinn leikur undir á píanó. Úkoman er ljómandi góð að mínu mati. Ég veit ekki hvað framhaldið verður hjá mér í þessu. Mér finnst virkilega gaman að syngja og stundum langar mig að gera eitthvað meira. Kannski er þetta lag fyrsta skrefið í því að gera eitthvað meira.“
En hvað er Helga Ingibjörg að gera í lífinu fyrir utan söng og flugfreyjustörf?
„Ég er í sambúð með Jóni Hauki Pálmasyni og við eigum 3ja ára „gorm“ sem heitir Hagalín Pálmi. Drengurinn okkar er mjög spenntur fyrir að það sé hægt að hlusta á mömmu í símanum. Ég er á fullu að vinna sem flugfreyja hjá Icelandair og ég hef verið í því starfi s.l. 7 ár. Það er krefjandi en ótrúlega skemmtilegt starf. Ég hef líka æft og þjálfað í Crossfit Ægir undanfarin 2 ár. Það er einnig mjög skemmtilegt,“ segir Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir.
Hér má lesa frétt frá þeim tíma þegar Helga Ingibjörg sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna 2006.