Pistill: „Góður árangur í rekstri bæjarins“


Aðsend grein frá bæjarfulltrúum Samfylkingar, Framsóknar og frjálsra á Akranesi sem mynda meirihluta í Bæjarstjórn Akraness.

Bókun Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra við síðari umræðu fjárhagsáætlunar Bæjarstjórnarfundur 10. desember 2019

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 sem hér er lögð fram er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 309 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B-hluta verði jákvæð samtals um 310 milljónir króna.

Á undanförnum árum hefur náðst góður árangur í rekstri bæjarins. Það sést vel á 9 mánaða uppgjöri ársins í ár, þar sem rekstarniðurstaða er jákvæð um rúmar 452 milljónir en áætlanir höfðu gert ráð fyrir 266 milljóna rekstrarafgangi.

Þessi góða staða er til komin vegna ábyrgrar fjármálastjórnar og gefur okkur svigrúm til að ráðast í stórsókn í uppbyggingu innviða til að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri. 

Í fjárhagsáætlun ársins 2020 og þriggja ára áætlun 2021-2023 birtist skýr framtíðarsýn bæjarstjórnar.

Fimleikahús við Vesturgötu verður tekið í notkun á næsta ári, uppbygging þjónustumiðstöðvar við Dalbraut heldur áfram og byggingaframkvæmdir hefjast við nýjan leikskóla.

Stóraukið fé er lagt í endurbætur á stofnanalóðum við leik- og grunnskóla, haldið áfram með endurbætur á innra rými Brekkubæjarskóla og með tilkomu nýs leikskóla fæst einnig viðbót við húsnæði Grundaskóla, en þessar framkvæmdir eru unnar með það að markmiði að bæta vinnuaðstæður starfsmanna og nemenda.

Einnig er á næsta ári gert ráð fyrir fjármunum til að tryggja Fjöliðjunni gott húsnæði fyrir sína starfsemi til framtíðar og byggð verður reiðhöll á félagssvæði Dreyra.

Áfram verður unnið að stórum skipulagsverkefnum, ráðist verður í gatnagerð í Skógahverfi til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu, uppbygging hefst í Flóahverfi á næsta ári og þá munum við einnig hefja úthlutun lóða á Sementsreit.

Uppbygging íþróttamannvirkja við Jaðarsbakka er sett á langtímaáætlun og hefst árið 2022.  

Við gerð þessarar fjárhagsáætlunar er aðhalds gætt í rekstri og möguleikar nýttir til að draga úr álögum á íbúa og fyrirtæki.

Farið er í einu og öllu að tilmælum um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninga, sem felur það í sér að gjaldskrár kaupstaðarins hækka ekki umfram 2,5% að meðaltali.

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og frjálsra þakka bæjarstjóra, embættismönnum og endurskoðanda Akraneskaupstaðar fyrir þá miklu vinnu sem að baki er við gerð þessarar fjárhagsáætlunar. Auk þess viljum við þakka öllum bæjarfulltrúum fyrir góða samvinnu í þeirri vinnu sem fram fór í ráðum og nefndum bæjarins.


Valgarður L. Jónsson
Elsa Lára Arnardóttir
Kristinn Hallur Sveinsson
Ragnar B. Sæmundsson
Guðjón Viðar Guðjónsson