Rakel Páls lofar ljúfri stemningu á jólatónleikum sínum í Tónbergi


„Við ætlum að hafa umgjörðina ljúfa og lágstemmda og við höfum ekki verið með tónleika eins og þessa áður. Við Birgir Þórisson, píanóleikari, héldum einu sinni jólatónleika í Akranesvita, sem vöktu mikla lukku og troðið var út úr dyrum. Ég vona svo sannarlega að Skagamenn nær og fjær sjái sér fært að koma á tónleikana mína í ár,“ segir Skagakonan Rakel Pálsdóttir sem verður með jólatónleika í Tónbergi á Akranesi sunnudaginn 15. desember n.k. kl. 20.00.

Eins og áður segir mun Birgir Þórisson leika á píanó og Pétur Valgarð Pétursson leikur á gítar. Rakel mun ekki koma ein fram því hún verður með áhugaverða gestasöngvara með sér.

„Ég verð með frábæra gestasöngvara með mér í þessu verkefni. Þau heita Íris Hólm og Birgir Steinn. Íris vakti athygli í Idol-þáttunum á Stöð 2 og er núna að troða upp um hverja helgi á Hótel Grímsborgum með Bee Gees show undir leiðsögn Gunnars Þórðarson. Birgir Steinn Stefánsson er ungur tónlistarmaður sem hefur m.a. gefið út lagið Can You Feel It og það var lengi í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2 og á fleiri stöðvum. Birgir Steinn á ekki langt að sækja hæfileikana, en faðir hans er Stefán Hilmarsson úr „Sálinni,“ segir Rakel sem hefur sjálf vakið athygli fyrir söng sinn á undanförnum misserum og sérstaklega með þátttöku sinni í Söngvakeppni Sjónvarpsins.

„Við verðum ýmist ein á sviðinu eða saman, ég tek mitt uppáhaldsjólalag sem heitir Jól og er eftir Jórunni Viðar, Grown Up Christmas List er einnig á dagskrá ásamt fleiri perlum,“ segir Rakel.

Rakel vekur athygli á því að frítt verður inn fyrir 12 ára og yngri og vonast hún til þess að það hjálpi til að fjölskyldur geti notið góðrar tónlistar.

„Ég vil bara að sem flestir sjái sér fært um að koma, og það getur verið dýrt fyrir fjölskyldur að fara á jólatónleika. Það er von mín að fleiri geti notið með okkur ef börn yngri en 12 ára fá frítt inn. Tilvalið fyrir fjölskylduna að njóta góðrar tónlistar saman í aðdraganda jólahátíðarinnar,“ segir Rakel Pálsdóttir að lokum við skagafrettir.is.

Hér er hlekkur á viðburðinn á Fésbókinni:

Smelltu hér til að kaupa miða: