„Við erum óendanlega þakklát öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem leggja verkefninu lið,“ segir Einar Karl Birgisson sem fer fyrir hópi sem stendur fyrir verkefninu Jólin 2019 – hátíð allra.
Einar Karl bjó lengi í Hvalfjarðarsveit þar sem að faðir hans Birgir Karlsson var lengi skólastjóri í Heiðarskóla. Einar Karl lék um tíma með körfuboltaliði ÍA og lék m.a. með unglingalandsliðum Íslands sem leikmaður ÍA.
Markmið verkefnisins er að létta þeim lífið sem eru einir um jólin og finna fyrir einmannaleika. Einar Karl og félagar hans ætla að opna Gumma Ben barinn í Reykjavík á Aðfangadag og gefa fólki kost á að deila jólahátíðinni með öðrum, upplifa sannan jólaanda, borða góðan mat og þiggja gjafir.
Við settum okkur í samband við nokkur góðgerðarfélög og fengum hugmyndir frá þeim hvenrig best væri að fara að því að leggja lóð á vogarskálanar. Í þessum samtölum kom þessi hugmynd upp. Að hafa jólamat á Aðfangadag kl. 18, á sama tíma og flestir eru að borða jólamat. Boltinn fór að rúlla og hugmyndin er að að verða að veruleika.
Við höfðum samband við eigendur Gumma Ben bar og óskuðum eftir að fá lánað húsnæðið hjá þeim undir þetta verkefni. Það var sjálfsagt mál af þeirra hálfu. Og þrír af starfsmönnum á Gumma Ben bar ætla að standa vaktina með okkur. Eins hafa margir einstaklingar boðist til að vinna með okkur á aðfangadag. Fjölskylduaðstæður okkar allra leyfa það þessi jólin að gera þetta að veruleika, svo nú var ekki aftur snúið.“
Einar Karl segir að mikil velvild sé til staðar hjá þeim fyrirtækjum sem koma að þessum viðburði.
Frá fyrsta degi hafa allir tekið vel í þessa hugmynd og viljað hjálpa. Eftir að ég greindi frá þessu á samfélagsmiðlum hafa yfir hundrað einstaklingar og fyrirtæki óskað eftir því að fá að taka þátt. Fyrirtæki sem ætla að gefa mat, drykki og allt sem þarf fyrir Aðfangadagskvöld. Við verðum með forrétt, rammíslenskt hangkjöt með öllu tilheyrandi í aðalrétt, og ís á eftir.
Það fá allir jólapakka, og hafa fyrirtæki og einstaklingar verið að koma með pakka til okkar. Það er enn pláss undir jólatrénu, það er hægt að koma pökkunum í niður á Gumma Ben bar, milli 16-20 fram á föstudag.-
Einar Karl segir að skráningin gangi vel og allir eru velkomnir.
„Rúmlega 40 manns eru nú þegar skráðir. Ég vona að með umfjöllun fjölmiðla þá fari einhverjir að hugsa: „Er einhver sem ég þekki sem ætti að kíkja þangað?,“ sagði Einar Karl Birgisson.
Skráning fer fram á netfanginu:
[email protected] og á Facebook síðunni Jólin 2019 – hátíð allra.