Eins og fram hefur komið á skagafrettir.is stóðu Knattspyrnufélagið Kári og „Vinir Kidda Jens“ fyrir styrktarleik fyrir Kristinn Jens Kristinsson.
Viðburðurinn tókst vel þar sem að margir lögðu lóð sín á vogarskálarnar. Í gær fór fram laufléttur viðburður þar sem að „Vnir Kidda Jens“ afhentu það sem safnaðist. Kristinn Jens og nokkrir félagar úr liði Kára áttu góða stund saman í gær þegar styrkurinn var afhentur.
Liðsmenn Kára og forsvarsmenn félagsins hafa afhent yfir eina milljón kr. í styrki á þessu ári í verkefni sem tengjast einstaklingum sem glíma við krabbamein og hafa kvatt vegna sjúkdómsins. Stór hluti þeirrar upphæðar var afhentur í gærkvöld.
Frá vinstri: Arnar Freyr Sigurðsson, Haraldur Sturlaugsson, Oliver Darri Bergmann, Andri Júlíusson, Kristinn Jens Kristinsson og Sveinbjörn Hlöðversson,
„ Við viljum þakka öllum sem lögðu hönd á plóg en verkefnið var unnið í samstarfi við Vini Kidda Jens. Heiðursmanneskjan Hulda Birna Baldursdóttir var forsprakkinn að verkefninu sem við Káramenn tókum að sjálfsögðu þátt í, enda verkefnið fallegt og brýnt. Kiddi Jens var að vonum innilega þakklátur enda söfnunin sú lang stærsta hingað til. Við óskum nýbökuðum afanum honum Kidda Jens góðrar framtíðar og góðum bata 😍
Kiddi fékk að sjálfsögðu Kárabol og Kárakonfekt með styrknum 😍Áfram Kiddi Jens og áfram Kári!
Gleðileg jól