Bæjarráð mótmælir 29% hækkun hjá Sorpurðun Vesturlands


Bæjarráð Akraness samþykkti á síðasta fundi sínum bókun þar sem að bæjarráð mótmælir 29% hækkun á gjaldskrá Sorpurðunar Vesturlands.

Um er að ræða hækkun á almennu heimilssorpi sem samþykkt var á fundi stjórnar Sorpurðunar Vesturlands þann 11. desember s.l.

Í bókun frá Sjálfstæðisflokknum á fundi bæjarráðs kemur fram að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Sorpurðunar Vesturlands greiddi atkvæði á móti tillögunni en það á ekki við um fulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra sem greiddi atkvæði með gjaldskrárhækkuninni, þvert gegn vilja bæjarráðs Akraneskaupstaðar.

Fulltrúar Akraneskaupstaðar í stjórn Sorpurðun Vesturlands eru eftirtaldir samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Akraneskaupstaðar:

  • Sævar Jónsson (D) aðalmaður
  • Karitas Jónsdóttir (B) aðalmaður
  • Carl Jóhann Gränz (D) varamaður
  • Ole Jakob Volden (B) varamaður

Ákvörðun stjórnar Sorpurðunar Vesturlands um gjaldskráhækkun á almennu heimilissorpi.Bæjarráð mótmælir ákvörðun Sorpurðunar Vesturlands frá 11. desember síðastliðnum um 29% hækkun á gjaldskrá á almennu heimilissorpi. Bæjarráð telur að ekki liggi fyrir nægjanleg gögn til rökstuðnings hækkuninni en þar sem um þjónustugjöld er að ræða þarf slíkt ávallt að liggja til grundvallar slíkri ákvörðun og er einnig í andstöðu við ákvæði lífskjarasamninganna.
Bæjarráð er með þessu ekki að gera lítið úr þörf á auknum fjárfestingum í þessum mikilvæga málaflokki en horfa þarf til forgangsröðunar og vinna áætlanir til lengri tíma samhliða því.
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins stendur heilshugar að baki bókun bæjarráðs um að mótmæla ákvörðun meirihluta stjórnar Sorpurðunar Vesturlands um hækkun gjaldskrár á almennu heimilissorpi. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Sorpurðunar Vesturlands greiddi atkvæði á móti tillögunni en það á ekki við um fulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra sem greiddi atkvæði með gjaldskrárhækkuninni, þvert gegn vilja bæjarráðs Akraneskaupstaðar. Sjálfstæðisflokkurinn harmar að meirihluti stjórnar Sorpurðunar Vesturlands hafi ekki stuðst við forsendur lífskjarasamninganna við afgreiðslu gjaldskrárinnar eins og bæjarstjórn Akraness hafði einsett sér í fjárhagsáætlunargerðinni fyrir árið 2020. Þessi ákvörðun kann að fela í sér þörf á endurskoðun gjaldskrár Akraneskaupstaðar varðandi sorphreinsun og sorpeyðingu.
Rakel Óskarsdóttir (sign)