Lagt til að Fjöliðjan fari „heim á ný“ á Dalbrautina


Fjöliðjan á Akranesi hefur á undanförnum mánuðum verið með starfsemi sína í bráðabirgðahúsnæði hjá Trésmiðjunni Akri.

Eins og áður hefur komið fram skemmdist húsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut 10 mikið í eldsvoða sem kom upp í byrjun maí á þessu ári.

Margir kostir hafa verið skoðaðir á undanförnu varðandi framtíðarhúsnæði fyrir Fjöliðjuna.

Miðað við tillögu sem skipulags- og umhverfisráð samþykkti á síðasta fundi sínum eru allar líkur á því að Fjöliðjan verði flutt á ný í sitt gamla húsnæði við Dalbraut 10.

  • Í fundargerð skipulags – og umhverfisráðs kemur fram að ástæður þess séu m.a. eftirfarandi:
  • Almenn ánægja stjórnenda og starfsmanna Fjöliðju með þá staðsetningu sbr. þarfagreining sem lögð hefur verið fram.
  • Minni óvissa um tímasetningar þ.e. hvenær hægt sé að fara úr þeirri bráðabirgðaaðstöðu þar sem starfsemi Fjöliðjunnar er í dag.
  • Starfsemi Fjöliðju hentar ekki á jarðhæð í íbúðarhúsnæði m.a. vegna hávaða og starfsemi á lóð.
  • Ef óbreytt staðsetning verður samþykkt er ljóst að horfa þarf til stækkunar núverandi lóðar vegna hugmynda um stækkun húss og þá starfsemi sem nauðsynleg er innan lóðar.

Fjöliðjan er vinnustaður þar sem boðið er upp á verndaða vinnu og endurhæfingu fyrir þá sem þess þurfa og leita eftir þjónustu. 

Í Fjöliðjunni á Akranesi fer fram fjölbreytt vinna og starfsfólkið tekst á við mörg ólík verkefni.