Þann 6. janúar næstkomandi verður tilkynnt um val á Íþróttamanni Akraness árið 2019. Athöfnin fer fram í Íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum að lokinni þrettándabrennu.
Klifrari ársins: Sylvía Þórðardóttir
Sylvía er fædd árið 2006. Hún æfir og keppir með Klifurfélagi ÍA. Árið 2019 var afar gott klifurár hjá Sylvíu og landaði hún þremur silfurverðlaunum fyrir ÍA í sínum aldursflokki.
Sylvía átti einnig mjög gott útiklifurtímabil þar sem hún klifraði margar erfiðar klifurleiðir og sýndi þar með styrkleika sinn sem alhliða klifrari. Á Íslandsmeistarmótinu í grjótglímu hafnaði hún í öðru sæti eftir harðan bráðabana.
Sylvía tryggði sér einnig silfurverðlaun á Bikarmeistarmótinu í grjótglímu. Í sumar varð Sylvía yngst klifrara til að klára leiðina, Janus á Hnappavöllum, en sú leið þykir mikil manndómsvígsla og mikið afrek að klifra hana tólf ára gömul.
Sylvía er samviskusöm, drífandi og jákvæð og æfir af krafti. Hún er vel liðin af æfingafélögum og er flott fyrirmynd fyrir yngri klifrara félagsins.
Helstu afrek Sylvíu á Íslandi á árinu:
- Silfurverðlaun á Íslandsmeistarmótaröðinni í grjótglímu.
- Silfurverðlaun á Bikarmeistarmótinu í gjótglímu.
- Silfurverðlaun á Íslandsmeistarmótinu í línuklifri.
Hvernig stendur Sylvía á landsvísu?
- Sylvía er ein sú sterkasta í sínum aldursflokki og hefur sýnt það með flottum árangri í keppnum ársins. Sylvía hlaut tvenn gullverðlaun, ein silfurverðlaun og ein bronsverðlaun á Íslandsmeistaramótaröðinni í grjótglímu í flokki 12-13 ára og hafnaði í 1.-2. sæti að mótaröð lokinni. Hún var hársbreidd frá því að tryggja sér sjálfan Íslandsmeistaratitilinn, bæði í grjótglímu og í línuklifri. Eftir harðan bráðabana við ríkjandi Íslandsmeistara landaði hún flottum silfurverðlaunum fyrir ÍA.