Skagamaðurinn Hallgrímur Ólafsson, leikur eitt af aðalhlutverkunum, í nýrri bíómynd sem frumsýnd verður í byrjun næsta árs. Hallgrímur eða „Halli Melló“ hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð á leiklistasrsviði Íslands og verður spennandi að sjá útkomuna í janúar.
Myndin verður að sjálfsögðu sýnd í Bíóhöllinni á Akranesi.
Myndin heitir Gullregn er leikstjóri myndarinnar Ragnar Bragason. Myndin er byggð á samnefndu leikriti.
„Ég tók þátt í þessu leikriti fyrir 7 árum og það er virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu aftur. Leiksýningin gekk mjög vel á sínum tíma.
Ég leik Unnar sem er sonur Indíönu. Hún hefur verndað son sinn mikið og gert hann háðan sér. Unnari fer síðan að ganga vel í lífinu, hann verður ástfanginn og þá fer ákveðin atburðarás af stað.
Indíana er umkringd fólki af erlendum uppruna sem hún fyrirlítur.
Í litlum garði við íbúðina hefur hún ræktað gullregn sem er hennar stolt og yndi.
En dag einn er heimi hennar snúið á hvolft þegar maður frá umhverfisráðuneytinu bankar upp á og segir henni að öll erlend tré á Íslandi skuli fjarlægð.