Sundfélag Akraness skorar á bæjaryfirvöld að flýta byggingu 50 metra innilaugar á Akranesi. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að aðstaða félagsins sé langt frá því að vera viðunandi og óskiljanlegt að ný sundlaug færist aftur og aftur neðar á forgangslista bæjaryfirvalda á Akranesi.
Tilkynningin í heild sinni er hér fyrir neðan.
Árið 2019 hefur verið gott hjá Sundfélagi Akraness og hefur iðkendum fjölgað á milli ára. Árið 2019 voru 382 iðkendur hjá félaginu eða 87 iðkendum fleiri en árið 2018.
Þar að auki náðu nokkrir afreksmenn félagsins afar góðum árangri hér á landi og erlendis.
Á árinu voru ýmsar nýjungar í starfi félagsins og má þar t.d. nefna námskeið fyrir iðkendur 6-12 ára með sérþarfir/fötlun sem hafa mælst vel fyrir.
Námskeiðin eru haldin í góðu samstafi við Akraneskaupstað og Þjót og er það markmið félagsins að geta þróað þetta starf áfram á komandi ári.
Um 30 iðkendur tóku þátt í vatnsleikfimi fyrir fullorðna í vor og í lok ársins var haldið námskeið í sundknattleik. Þar tóku margir krakkar þátt sem ekki hafa áður stundað sund sem er ákaflega gleðilegt þar sem sundknattleikur er afar góð hreyfing sem reynir meira á en maður heldur.
Sundfélagið hefur áhuga á að sinna fjölbreyttum hópi iðkenda og hefur margar góðar hugmyndir að námskeiðum fyrir unga sem aldna og fær félagið margar fyrirspurnir um að halda námskeið fyrir hópa.
Því miður er það hindrun í starfi félagsins hversu Bjarnalaug er þétt setin og í raun löngu sprungin. Laugin er semsagt í stanslausri notkun, ekki bara af Brekkubæjarskóla og Sundfélaginu heldur einnig af Feban, Hver, Þjóti og fleiri félögum og hópum.
Þá er spurning hvort ekki megi nota Jaðarsbakkalaug betur?
Svarið við því er að hún er líka fullnýtt og meira en það.
Sundfélag Akraness notar 3 brautir frá skólalokum og fram á kvöld á hverjum virkum degi. Tvær brautir eru því eftir fyrir almenning, bæði þá sem vilja synda sér til heilsubótar og krakka að leik.
Staðreyndin er sú að sundlaug er ekki bara fyrir þá sem stunda sund sem íþrótt heldur alla bæjarbúa og með stækkandi bæjarfélagi er mikil þörf fyrir bætta aðstöðu.
Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um nýja sundlaug á Akranesi sem hluta af uppbyggingu íþróttamannvirkja bæði í þágu almennings og þeirra sem æfa sund.
Það er óskiljanlegt að ný sundlaug færist aftur og aftur neðar á forgangslista bæjaryfirvalda á Akranesi. Við viljum ekki horfa á eftir barnafjölskyldum fara í önnur bæjarfélög til að fara með börnin sín í innilaug og því síður viljum við að sundkennsla og sundæfingar falli ítrekað niður vegna veðurs eða of kaldrar laugar.
Þar að auki er orðið erfitt að halda sundmót á Akranesi vegna aukinna krafna sem gerðar eru til keppnislauga og aðbúnaðar í kringum þær.
Sundfélag Akraness stendur frammi fyrir þeim staðreyndum að geta ekki sinnt öllum þeim ungu iðkendum sem vilja æfa sund og getur ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til aðbúnaðar fyrir afreksfólk í sundi.
Sundfélag Akraness skorar því á bæjaryfirvöld á Akranesi að bregðast sem fyrst við og standa undir merkjum sem heilsueflandi samfélag með byggingu nýrrar 50 metra innilaugar í þágu allra bæjarbúa.
F.h Sundfélag Akraness, Kjell Wormdal, yfirþjálfari.