„Kátir krakkar“ – áhugavert námskeið í boði hjá Hugarfrelsi

„Eftir þónokkrar vangaveltur um lífið og tilveruna komumst við að þeirri niðurstöðu að að hlutverk okkar beggja væri að hjálpa öðrum, meðal annars börnum. Við vildum leggja áherslu á að hjálpa börnum til að þau myndu átta sig betur á hver þau raunverulega eru, hvar styrkleikar þeirra liggja og hvað veitir þeim ánægju og gleði. Með því móti eru meiri líkur á að börn öðlist hamingju, friðsæld og verði sátt við sig og aðra samferðamenn, séu fær um að forgangsraða lífi sínu á sem bestan hátt og eigi auðveldara með að breiða út ást og kærleika til allra. Úr þessum vangaveltum varð fyrirtækið okkar Hugarfrelsi til,“ segir Unnur Arna Jónsdóttir við skagafrettir.is 

Unnur og Hrafnhildur Sigurðardóttir eru eigendur Hugarfrelsis sem stendur fyrir ýmis konar fræðslu, námskeiðum og fyrirlestrum þar sem börnum, unglingum, foreldrum og fagfólki er kennt að nota einfaldar aðferðir til að efla sjálfsmynd og vellíðan. 

Slíkt námskeið er fyrirhugað á Akranesi fyrir börn og hefst það í lok janúar. Unnur segir að mikil eftirspurn hafi verið frá foreldrum að bjóða upp á slík námskeið fyrir börn. 

Einfaldar aðferðir til að efla sjálfsímynd sína 

„Við byrjuðum á að bjóða upp á námskeið fyrir börn. Í upphafi var ekki mikil þátttaka á barnanámskeiðunum en við fengum mikið af fyrirspurnum frá fullorðnum. Fyrsta árið voru því fleiri fullorðnir en börn hjá okkur en þetta var fljótt að breytast. Í dag bjóðum við upp á námskeið fyrir börn, unglinga og ungmenni í 10 sveitarfélögum víðsvegar á landinu. Námskeið fyrir fagfólk (kennara, náms- og starfsráðgjafa, alla þá sem starfa með börnum) og innleiðingar í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Það er gaman að segja frá því að á Akranesi eru tveir leikskólar sem hafa innleitt Hugarfrelsi sem og Grundaskóli og einnig hafa margir kennarar Brekkubæjarskóla sótt fagnámskeið Hugarfrelsis.“


Greinin heldur áfram hér fyrir neðan:

Námskeið Hugarfrelsis ganga út á það að kenna börnum einfaldar aðferðir til að efla sjálfsmynd sína og verða besta útgáfan af sjálfum sér.

„Í hverjum tíma eru gerðar einfaldar öndunaræfingar, jóga, slökun og hugleiðsla ásamt fræðslu og verkefnum til að efla einstaklinginn og sjálfsmynd hans. Hugleiðslutæknin sem Hugarfrelsi notar eru hugleiðslusögur sem eru mjög myndrænar og henta vel þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í að kynnast eigin huga.“

Kátir krakkar – námskeið í boði fyrir börn í 2.-7. bekk 

„Á Akranesi er í boði námskeiðið Kátir krakkar fyrir börn í 2.- 4. bekk og 5.-7. bekk. Í upphafi námskeiðsins fá foreldrar senda fræðslu þar sem Hrafnhildur og Unnur, eigendur Hugarfrelsis, fara vel yfir áherslur námskeiðsins og hvað gert er í hverjum tíma. Foreldrar fá líka vikulega sendan tölvupóst þar sem tilgreint er hvað gert er í tíma vikunnar og hvað hægt er að gera heima með börnunum milli tíma.

Bestur árangur næst þegar foreldrar taka virkan þátt heima til dæmis með því að lesa hugleiðslusögur fyrir börn sín eða minna þau á að velja að vera jákvæð og hafa trú á eigin getu.

Námskeiðið er því bæði fyrir börnin og foreldra þeirra.  Kennslan fer fram einu sinni í viku í 10 skipti alls.

Kennt er í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Lára Dóra Valdimarsdóttir kennir 7-9 ára hópnum og Helena Másdóttir kennir 10-12 ára hópnum. Þær eru báðar þjálfaðir Hugarfrelsis kennarar og hafa mikla reynslu af kennslu barna.“

Lára Dóra Valdimarsdóttir og Helena Másdóttir.

Unnur segir að töluverð reynsla sé komin á námskeiðin hjá Hugarfrelsi og notkun aðferða Hugarfrelsis, bæði á leikskólum, í grunnskólum og meðal foreldra víðsvegar á landinu. 

„Námskeiðið Kátir krakkar  hefur verið í boði síðan 2014 en fyrstu námskeiðin á Akranesi fóru af stað haustið 2017. Þau verið mjög vel sótt síðan, bæði af börnum búsettum á Akranesi og í nágranna byggðum. Það eru mest 12 börn í hverjum hópi,“ segir Unnur að lokum. 

Fólkið á bak við verkefnið?

Hrafnhildur og Unnur eigendur Hugarfrelsis eru æskuvinkonur en hugmyndina að stofnun Hugarfrelsis fengu þær árið 2013. Þær hafa margskonar menntun en líta fyrst og fremst á sig sem foreldra sem vilja hafa áhrif á það hvernig börnum líður og hvernig líf þau geta búið sér. 

Þær stöllur líta á foreldrahlutverkið sem eitt mikilvægasta hlutverk okkar í lífinu. Þær telja mikilvægt að styðja foreldra í því hlutverki og minna þá á að þeir eru helstu sérfræðingar í börnunum sínum. Til að ná enn betur til þeirra ákváðu þær fyrir nokkrum árum að bjóða upp á ókeypis foreldranámskeið. Námskeiðið er ein og hálf klukkustund. Þær byrjuðu á höfuðborgarsvæðinu en hafa undanfarið ár boðið upp á það víðsvegar á landinu en námskeiðið hafa sótt um 2500 foreldrar.

Á síðast liðnum árum hafa komið út fimm bækur með aðferðum Hugarfrelsis og fleiri áhugaverðar vörur sem allar miða að því að efla fólk og styrkja, auka vellíðan og draga úr kvíða. Sjá nánar á www.hugarfrelsi.is