Pistill: Tímamót í leikskólastarfi – tækifæri og ógnanir


Ingunn Ríkharðsdóttir skólastjóri í Garðaseli skrifar:

Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins þriðjudaginn 6. febrúar. Þetta er í þrettánda skipti sem haldið er upp á daginn en sjötti febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Á þessum tímamótum er hollt að líta til baka og skoða hvernig upphafið var, hvar  stöndum við núna og hvaða hlutverki leikskólinn gegnir í dag. Í flestum tilfellum má segja að vel hafi tekist til við að byggja upp leikskólastarfið og mæta þeim ríku kröfum sem ólíkir hagsmunahópar hafa gert og gera enn til starfsemi leikskóla. Rekstraraðilar, foreldrar, leikskólakennarar og starfhópar leikskólanna, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, atvinnulífið en einn hópur og sá mikilvægasti, börnin, vill gjarnan gleymast. 

Okkur hefur borið af leið í þessari vegferð og það verður mikið verk að snúa þessari þróun við en við skulum ekki víkjast undan þeirri skyldu okkar að takast á við það verkefni. Við eigum að slá skjaldborg um yngstu börnin og hafa ætíð í huga það sem kemur þeim best. Viljum við reka góða leikskóla fyrir börn ? Þá þarf að endurhugsa margt og þora að taka stöðu með börnum. 

Þjónusta og velferð barna

Okkur,sem störfum í leikskólum, er vel ljóst að leikskólinn hefur fleira en eitt markmið. Hann á að vera öruggur staður fyrir lítil börn en hann er líka skólastofnun, þar sem Aðalnámskrá ásamt lögum og reglugerðum eru rammi um starfsemi. Ég get fullyrt að hér á Akranesi er leiðarljósið ávallt að mæta þeim kröfum sem gerðar eru hverju sinni og oft er gengið ansi langt í að uppfylla þær kröfur, lengra en flestir vita eða átta sig á.

Orðið þjónusta er fyrsta orðið og mælikvarðinn sem kemur upp í huga minn þegar ég horfi til umræðna og krafna um leikskóla. Í dag eru háværar raddir um opnunartíma og hvort skoða megi að minnka hann og jafnvel stytta dvalartíma barna. En þá kemur umræðan um skerðingu á þjónustu og að foreldrar séu settir í vanda varðandi sína vinnu. Umræðan stoppar gjarnan þar og háværar raddir taka yfir þannig að heilbrigð og skynsamleg umræða verður undir. 

Rökin að leikskólar séu stofnanir til að þjónusta vinnutíma foreldra og atvinnurekenda hefur nefnilega lítið með velferð barna að gera. Það er ekki velferð barna að vera 8,5 -9,5 klst á dag  í leikskóla, þar sem sjónrænt og heyrnrænt áreiti er allan þennan tíma. Áreitin í leikskóla fyrir lítil börn eru margvísleg og húsnæði og rými bjóða í fæstum tilfellum upp á að börn séu í fámennum hópum og hafi val um það sjálf. Að vera í stórum hópi barna allan daginn og hafa lítið næði til að vera einn eða dunda sér, að dagurinn sé samfelldur án hléa og hvíldar að neinu ráði fyrir börn, að hlusta á grát annarra barna eða upplifa vanlíðan þeirra  eða þegar annað barn meiðir annað barn. Allir þessir þættir skapa álag á lítil börn og sama hversu umhugað okkur er að huga að umhverfi þeirra er sumt á okkar færi, annað ekki. 

Velferð barna – hverju þurfum við að breyta til að uppfylla þá þörf betur ? 

Stytting vinnuvikunnar – hvað með börnin ? 

Nú er stytting vinnuvikunnar sameiginlegt átak í nýjum kjarasamningi þar sem viðsemjendur telja mikilvægt að koma til móts við vinnandi fullorðið fólk, sem margt hvert  er að bugast í lífinu – í starfi, í námi, í hreyfingu, í tómstundum, að uppfylla væntingar og viðmið um heimilið og að fylgja börnum sínum eftir í íþrótta – eða tómstundastarfi. Styttingin getur verið með mörgum útfærslum en með henni fást allt að 7 virkir frídagar á ári til foreldra.

Viljum við ræða styttingu vinnuvikunnar hjá litlum börnum ? Höfum við sömu áhyggjur af því að þau séu að bugast ? Ætlum við að sleppa því að skoða langan vinnudag barna og að ekki megi ræða um styttingu á þeim tíma vegna þess að þá þurfi að skilgreina „ frídaga „ foreldra í viðveru með börnum sínum ?  

Ég hef mikla trú á foreldrum ungra barna og skynja að velferð barnanna er þeim mikilvæg.  Með styttingu vinnuvikunnar gefst tækifæri sem við höfum beðið lengi eftir til að skoða langa viðveru barna og væri dapurt að glopra því tækifæri niður af ótta við að takast á við umræðu um „ þjónustuskerðingu „ leikskóla.

Eitt leyfisbréf skólastiga 

Með tilkomu eins leyfisbréfs fyrir kennara þurfa leikskólar að takast á við miklar áskoranir og verja starfsumhverfið. Samanburður á vinnutíma, starfsumhverfi, fríum yfir skólaárið eru þættir þar sem hallar verulega á leikskólann. Leikskólastigið stendur því á tímamótum og á undir högg að sækja víða um land. Nýjir kjarasamningar eru einn af öðrum að detta í hús og ljóst að leikskólinn þarf að finna margar nýjar lausnir í starfsemi sinni til að mæta þeim kjarabundna rétti sem samningum fylgir. Óbreytt staða verður kannski ekki val þegar allt kemur til alls.

Í leikskólanum ríkir kærleikur, nánd, umhyggja, gleði og mikið og náið samstarf við foreldra. Teymisvinna starfsfólk, þar sem þétt og markvisst er unnið með barnahópa, skilur engan eftir með verkefni sem hann á að vinna einn og bera ábyrgð á. Það eru styrkleikar leikskólans og mikilvægt að gleyma þeim ekki þegar kemur að samanburði skólastiga. En hver og einn kennari velur það sem honum hugnast best hverju sinni og ekki hægt að breyta þeirri staðreynd. En ákveðinn atgervisflótti er úr leikskólunum og af því eigum við að hafa áhyggjur – núna.

Foreldrahlutverið – ábyrgð og fórnir 

Þegar lítið barn fæðist takast foreldrar á við nýtt hlutverk og ábyrgð þeirra er mikil. Stundum þurfa þeir að forgangsraða og færa fórnir fyrir barnið sitt, þannig er nú einu sinni foreldrahlutverkið. Það er vissulega áskorun að verða foreldri og fá inn lítinn einstakling, sem krefur foreldra sína um breytingar á lífi sínu. Þá áskorun þurfa foreldrar að axla og samfélagið að styðja við þá eins og kostur er.

Í mínu starfsumhverfi upplifi ég unga feður axla sitt föðurhlutverk af mikilli umhyggju og áhuga og standa sig gríðarlega vel í því hlutverki. Þeir koma með börnin í leikskólann, mæta á viðburði og í foreldrasamtöl, þannig birtist samvinna foreldra leikskólabarna mér daglega. Við skulum því ekki fara í þá vegferð að stytting á viðveru barna þýði að mæður / konur verði að að sinna henni, þannig gerum við lítið úr þátttöku feðra.

Tækifærin framundan 

Á Akranesi eru frábærir leikskólar með öflugt faglegt starf og það þarf að verja. Nýr leikskóli er kominn í farveg og með honum birtast mörg tækifæri til að færa rými barna og aðbúnað barna í leikskólum á Akranesi í betri farveg en er í dag.

Við þurfum kjark til að ræða velferð barna og hvaða aðstæðum þeim eru búnar í dag, þar getum við gert miklu betur og kannski dæmir sagan síðar þá vegferð sem farin hefur verið. 

Horfum gagnrýnum augum inn og út á við, bæði við sem störfum í leikskólunum en ekki síður rekstraraðilar.  Skoðum kröfur um þjónustu með gagnrýnum hætti og ávallt með það að leiðarljósi hvaða lausnir eru til staðar og hvernig starfsumhverfi barna og starfsfólks þarf að vera. 

Skorumst ekki undan þeim áskorunum sem framundan eru en lausnin liggur ekki eingöngu í leikskólunum, heldur þurfa rekstraraðilar, foreldrar og atvinnulífið að slá skjaldborg utan um yngstu börnin og velferð þeirra til framtíðar. 

Ingunn Ríkharðsdóttir skólastjóri í Garðaseli
http://localhost:8888/skagafrettir/2019/02/04/pistill-med-minum-augum-ingunn-rikhardsdottir/