Hætta dreifingu á fjölpósti á Akranesi og fleiri stöðum


Miklar breytingar eru fyrirhugaðar hjá Póstinum á dreifingu á ónafn­merkt­um fjöl­pósti á höfuðborg­ar­svæðinu, Reykja­nesi, Sel­fossi og Akra­nesi frá og með 1. maí. Rúm­lega 30 starfs­mönn­um verður fyr­ir vikið sagt upp störf­um frá og með deg­in­um í dag hjá Póstinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.

Póst­ur­inn held­ur áfram að bjóða upp á dreif­ingu á fjöl­pósti á öðrum svæðum og í dreif­býli. Þessi breyt­ing leiðir til um 200 millj­óna króna lækk­un­ar kostnaðar á árs­grund­velli hjá fyr­ir­tæk­inu,

Breyt­ing­in hef­ur áhrif á um 40 starfs­menn en mögu­legt er að færa um 10 starfs­menn til í starfi inn­an fyr­ir­tæk­is­ins. Rúm­lega 30 starfs­mönn­um verður því sagt upp störf­um frá og með deg­in­um í dag og er þar um að ræða starfs­menn í flokk­un og dreif­ingu á svæðinu.

Fram kem­ur að magn fjöl­pósts hafi dreg­ist mikið sam­an á und­an­förn­um árum og mik­il fækk­un al­mennra bréfa hafi haft í för með sér minni sam­legðaráhrif á dreif­ingu bréfa­pósts og fjöl­pósts.

„Áður fóru bréf­ber­ar í nær öll hús með bréf og því féll það vel að starf­sem­inni að dreifa fjöl­pósti á sama tíma en nú hef­ur bréf­um fækkað svo mikið að oft fara bréf­ber­ar ein­göngu með fjöl­póst en eng­in bréf og því er lít­ill rekstr­ar­grund­völl­ur fyr­ir þess­ari þjón­ustu. Einnig ber að horfa til þess að sí­fellt stærri hóp­ur al­menn­ings vill ekki fá fjöl­póst, m.a. vegna um­hverf­is­sjón­ar­miða, og hef­ur sá hóp­ur stækkað mikið á síðustu miss­er­um. Sú þróun mun halda áfram með auk­inni um­hverfis­vit­und al­menn­ings og þróun á sta­f­ræn­um lausn­um. Þetta leiðir til þess að mikið magn papp­írs sem sent er í dreif­ingu verður eft­ir í kerfi Pósts­ins sem flæk­ir starf­sem­ina og skap­ar kostnað og óhagræði.“