Miklar breytingar eru fyrirhugaðar hjá Póstinum á dreifingu á ónafnmerktum fjölpósti á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Selfossi og Akranesi frá og með 1. maí. Rúmlega 30 starfsmönnum verður fyrir vikið sagt upp störfum frá og með deginum í dag hjá Póstinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum.
Pósturinn heldur áfram að bjóða upp á dreifingu á fjölpósti á öðrum svæðum og í dreifbýli. Þessi breyting leiðir til um 200 milljóna króna lækkunar kostnaðar á ársgrundvelli hjá fyrirtækinu,
Breytingin hefur áhrif á um 40 starfsmenn en mögulegt er að færa um 10 starfsmenn til í starfi innan fyrirtækisins. Rúmlega 30 starfsmönnum verður því sagt upp störfum frá og með deginum í dag og er þar um að ræða starfsmenn í flokkun og dreifingu á svæðinu.
Fram kemur að magn fjölpósts hafi dregist mikið saman á undanförnum árum og mikil fækkun almennra bréfa hafi haft í för með sér minni samlegðaráhrif á dreifingu bréfapósts og fjölpósts.
„Áður fóru bréfberar í nær öll hús með bréf og því féll það vel að starfseminni að dreifa fjölpósti á sama tíma en nú hefur bréfum fækkað svo mikið að oft fara bréfberar eingöngu með fjölpóst en engin bréf og því er lítill rekstrargrundvöllur fyrir þessari þjónustu. Einnig ber að horfa til þess að sífellt stærri hópur almennings vill ekki fá fjölpóst, m.a. vegna umhverfissjónarmiða, og hefur sá hópur stækkað mikið á síðustu misserum. Sú þróun mun halda áfram með aukinni umhverfisvitund almennings og þróun á stafrænum lausnum. Þetta leiðir til þess að mikið magn pappírs sem sent er í dreifingu verður eftir í kerfi Póstsins sem flækir starfsemina og skapar kostnað og óhagræði.“